150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og fyrir að flytja okkur þetta mál. Ég fagna því að nú komi fram þingmál þar sem er verið að horfa til einstaklinganna, til litlu fyrirtækjanna sem hafa þurft að loka en eru að berjast og horfa til framtíðar. Við vitum öll að einkageirinn er okkur mjög mikilvægur og hann þarf að geta þróast og vaxið og dafnað áfram. Ég saknaði þess þegar fyrsti pakkinn kom að þar var ekki upplýst um það hversu mikið af störfum átti að verða þar til í einkageiranum eða þá hjá ríkinu. Mér fannst í mörgu þar fókuserað á ríkið. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé útilokað að setja skýra mælikvarða varðandi rekstrarhæfið sem hér er verið að ræða um. Er útilokað að setja slíka mælikvarða sem eru skýrir, augljósir og gegnsæir? Það er alltaf erfitt og vandasamt þegar við erum með eitthvert huglægt mat á hlutunum.

Í öðru lagi á þessi stuðningur að gilda til 3. maí. Hvað gerist eftir 3. maí?