150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ástæða til að spyrja sig að því, þegar við erum að draga verulega úr aðhaldi ríkisfjármálanna, hvort við séum að bjóða heim hættunni á verðbólgu. Það er mjög skiljanlegt að hv. þingmaður komi ítrekað upp og bendi á slæmar afleiðingar verðbólguskots ef til þess kæmi. En við teljum að þetta frumvarp sé ekki líklegt til að valda verðbólgu eitt og sér vegna þess að það hefur orðið slíkur skellur í hagkerfinu t.d. í eftirspurn sem birtist í því að fyrirtæki hafa ekki lengur tekjur, mörg hver. Ég átti samtal hér eftir hádegi við mann sem sagði mér að það væri einfalt að tekjurnar í hans fyrirtæki hefðu algerlega hætt að streyma inn, það hefði orðið 100% tekjufall. Við svo mikla breytingu þarf að grípa hratt inn í og við erum að gera það með öflugum hætti en þó ekki þannig að það sé líklegt til að valda verðbólguáhrifum.