150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ræðuna. Hér er um mikilvæg úrræði að ræða, þ.e. þessa lokunarstyrki og síðan stuðningslán, hvort tveggja mikilvægar aðgerðir og jákvæðar. Ég vil þó beina aðeins sjónum að áhrifum á ríkissjóð. Ábyrgð ríkisins á stuðningslánunum þýðir að það bindur 0% eigið fé lánveitenda, þ.e. bankans, og áhrifin eru þá engin á hann. Þá spyr maður hvaða ábyrgðargjald eða endurgreiðslugjald ríkið fær frá bankanum. Er búið að reikna þetta áhættuálag til ríkisins miðað við og versus ábata lánastofnunarinnar vegna stuðningslánanna? Þetta eru háar fjárhæðir, á bilinu 28–46 milljarðar, og við viljum að sjálfsögðu að þetta nýtist sem best þeim sem þurfa á því að halda. (Forseti hringir.) Þá er kannski eðlilegt að spurt sé hversu stór hluti er að fara til bankanna í formi þessara gjalda.