150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í raun litið þannig á að við nýtum okkur þjónustu bankanna til að koma þessum fjármunum því sem næst milliliðalaust frá ríkinu til þeirra sem á þurfa að halda. Í 15. gr. er fjallað um að lánastofnunin fær fyrir þessa umsýslu tiltekna þóknun. Hún mun verða nánar ákvörðuð í samningi við Seðlabankann og takmarkast allar þóknanir lánastofnunarinnar við það sem þar verður um samið. En ríkið er í raun og veru ekki að veita þriðja aðila ríkisábyrgð eins og á við þegar við erum að taka sérstakt ríkisábyrgðargjald, heldur er þetta því sem næst milliliðalaus beinn stuðningur til lántaka.