150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar stuttlega að koma inn á þetta mál sem rætt er hér sem snýr að lokunarbótum og stuðningslánum sem voru kynnt í gær. Ég vil byrja á því að fagna því eins og öllum öðrum aðgerðum sem gengið er til í þeirri stöðu sem uppi er og lýsa yfir ánægju minni hvað lokunarstyrkina varðar. Ég held að þetta sé sanngjörn leið og vel útfærð. Ég veit til þess að hún hefur verið innleidd í Noregi. Þetta er einföld útfærsla og á að geta tekist að klára það án þess að skapa margar flækjur og óþarfar. Ég verð að segja það fyrst að margir reiknuðu með að aðgerðapakkinn sem var kynntur í gær væri svolítið öðruvísi í laginu, annar aðgerðapakki stjórnvalda, en ég vona að það sé styttra í kynningu á þriðja aðgerðapakka en var á milli fyrsta og annars.

Mig langar aðallega í ræðu minni að koma inn á stuðningslánin. Horft er til þess að þetta sé til aðila sem eru með að hámarki 500 milljóna veltu og þá hefur verið horft til minni rekstraraðila í kerfinu. Til að setja töluna í samhengi fyrir þá sem eru í efri mörkum þessara tekjuviðmiða eru töluverðar líkur á því að launaútgjöld ferðaþjónustufyrirtækis sem er með 500 milljónir í veltu séu um 250 millj. kr. á ári. Þegar slíkt fyrirtæki er búið að setja alla sína starfsmenn í 25% hlutastarf þá er mánaðarleg launagreiðsla slíks aðila rétt rúmar 5 millj. kr. á mánuði. Þannig að hámarksupphæð láns er ekki að tomma nema rétt rúmlega mánaðarlaunagreiðslu. Ég held að það eitt og sér ætti að undirstrika að líkur eru til þess að frekari aðgerða sé þörf. En vissulega kom hæstv. fjármálaráðherra inn á það í framsögu sinni að stuðningslánin lokuðu ekki á það að fyrirtæki gætu nýtt sér brúarlánaleiðina. Ég beini því til hæstv. fjármálaráðherra, ef hann kemur í ræðu aftur undir þessu máli, að áhugavert væri að heyra hver staðan er hvað frágang brúarlána varðar. Í þeim efnum hef ég miklu meiri áhyggjur af leggnum á milli Seðlabanka og viðskiptabankanna, frágangi á þeim legg, heldur en frágangi á samningi milli fjármálaráðuneytis og Seðlabanka sem liggur fyrir að er klár og allt í góðu með það. En það er þessi frágangur á leggnum milli Seðlabanka og viðskiptabankanna sem ég held að skipti gríðarlega miklu máli að takist að klára í rauninni ekki seinna en strax því að það eru ekki nema einir fjórir, fimm virkir dagar fram að launagreiðslu hjá fyrirtækjum sem hafa horft til þessara lausna núna í heilan mánuð sem a.m.k. hluta af lausn sinna vandamála tímabundið.

Mig langar aðeins varðandi stuðningslánin að koma inn á skilyrðin. Eitt skilyrðanna er 40% tekjulækkun. Auðvitað þurfa að vera skilgreind viðmið í regluverki sem þessu en það þarf samt að skoða í nefndarvinnunni, ég gef mér að málið fari til nefndar að aflokinni þessari umræðu. Það þarf að tryggja að fyrirtæki, sem hafa slegist með öllum tiltækum ráðum síðan þessi staða kom upp, haldi rekstrinum áfram þótt með gjörbreyttum hætti sé. Ég nefni í því samhengi veitingastaði sem hafa farið af stað með heimsendingarþjónustu í stað þess að þjóna gestum sem mæta á staðinn og svo mætti telja áfram. Fyrirtæki og rekstraraðilar sem hafa lagt nótt og dag við að halda rekstrinum gangandi mega ekki fá það í bakið núna með kannski 35–38% tekjuskerðingu en búin að gjörbylta öllu, því að slíkar aðgerðir eru heldur ekki ókeypis, að breyta rekstrarforsendum fyrirtækis síns yfir nótt til að halda því sem mögulegt er gangandi. Þetta þarf að skoða.

Mig langar jafnframt að koma inn á atriði sem er fjórði punkturinn í skilyrðunum. Hann snýr að arðgreiðslum sem ég held að sé alveg sjálfsagt og eðlilegt að takmarkanir séu á, rétt eins og var í brúarlánaleiðinni, hvort það hafi verið skoðað eitthvað í ráðuneytinu og mögulega í nefnd hvað hlutabótaleiðina varðar, af því að nálgunin er sú sama, hvort ástæða sé til að horfa öðrum augum á það þegar arðgreiðsla fer til móðurfélags og þaðan til greiðslu lána. Ég er ekki með einhverja mjög formaða skoðun á þessu en samsetning og skipulag fyrirtækja er með fjölbreyttum hætti og það er þekkt að fjármögnun rekstrar getur legið í móðurfélagi og arðgreiðslur sem koma frá dótturfélagi gangi þá til uppgjöra við lánastofnun.

Síðan er það atriðið sem snýr að því að lokunarstyrkur dragist frá hámarki lánsfjárhæðar samkvæmt 1. mgr. Þarna er í rauninni verið að ramma það inn að hámark til hvers fyrirtækis sé 6 milljónir í þessu tilviki. Ég þekki ekki margar sögur af mjög fjölmennum fyrirtækjum sem hafa lokað vegna sóttvarnareglna en þau kunna þó að vera til, þannig að hv. efnahags- og viðskiptanefnd ætti að taka alla vega einn snúning á því að skoða þessa tilteknu klásúlu. Síðan þarf auðvitað að skoða sérstaklega með hvaða hætti það er rammað inn að annars vegar segir í 14. gr. að stuðningslán megi aðeins nýta til að standa undir rekstrarkostnaði lánþega. Um skilyrðin segir í 5. gr. að rekstraraðili megi ekki vera í vanskilum við lánastofnanir sem hafa staðið lengur en 90 daga. Það eru auðvitað veruleg vanskil, þykir manni líklegt, sem hafa hlaðist upp í kerfinu núna síðustu tvo mánuði, þannig að þetta verði ekki ryksugað í heild sinni, það sem eftir er, upp í vanskil gagnvart lánastofnunum. En það er útfærslan sem ég hef svo sem ekki sérstakar tillögur um en legg til að efnahags- og viðskiptanefnd ræði sérstaklega.

Að því sögðu vil ég ítreka að ég er ánægður með þennan hluta aðgerðanna en það breytir því ekki að viðfangsmeiri og umfangsmeiri aðgerða er þörf hvað aðra þætti varðar því að það blasir við öllum sem fylgjast með þeirri stöðu sem nú er að þróast, að ef atvinnulífið nær ekki að komast út úr þessum hremmingum verður þröngt um að standa undir fúnkerandi góðu velferðar- og menntakerfi og víðar í ríkisrekstrinum ef tekjuöflunarmöguleikar atvinnulífsins falla varanlega.