150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur komið hér inn á nokkur af skilyrðunum sem er sjálfsagt að staldra við og eðlilegt. Eitt er veltuviðmiðið. Þetta er alltaf álitamál. Í undirbúningsvinnunni var skoðað að hafa veltuviðmið jafnvel lægra eða hærra, 300 milljónir, 500 milljónir. Þegar þetta er borið saman við fyrirtækjaskrána sést að það munar ekki öllu í fjölda fyrirtækja að færa viðmiðið um einhver hundruð milljóna en í því tilviki sem nefnt var gæti einmitt brúarlánaleiðin, viðbótarlánið sem þar er til skoðunar, komið fyrirtæki að notum. Seðlabankinn vinnur núna hörðum höndum að því að ljúka samningsgerðinni við fjármálastofnanir og miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið hef ég væntingar um að, við skulum segja ekki síðar en í fyrri hluta maímánaðar verði komið á afgreiðslu umsókna vegna þess úrræðis.

Hér er sömuleiðis komið inn á viðmið um tekjutap. Það er slæmt með svona viðmið að það verða mjög mikil jaðaráhrif. Þú ert annaðhvort inni eða úti. Ef þú nærð ekki 40% tekjutapi vegna þess að þú ert með 38% stendur úrræðið hreinlega ekki til boða, ekki í neinu hlutfalli. Menn eru þá bara úti. Mér finnst ekkert að því að menn velti fyrir sér hvort þessu sé nákvæmlega rétt stillt þarna í 40%. Ég hef hins vegar eftir umræðuna hér í dag og undanfarna daga ekkert síður verið að hugsa um fyrirtæki sem ekki var gert að loka svipað og fyrirtæki sem hv. þingmaður nefndi en hafa orðið fyrir verulegum skakkaföllum, jafnvel allt að 100% tekjutapi og eru núna að treysta á hlutastarfaleiðina og spurt mig hvernig við getum komið til móts við slík fyrirtæki, ekki síst í ljósi þess að ástandið virðist ætla að vara miklu lengur en við vorum að vonast til þegar við ræddum saman fyrir kannski mánuði síðan.