150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins nota tækifærið og koma inn á það skilyrði sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að fyrirtæki mættu ekki hafa verið í vanskilum í 90 daga við lánastofnanir. Mér finnst ástæða til að koma því á framfæri að samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið frá fjármálafyrirtækjunum hefur yfirgnæfandi meiri hluti allra fyrirtækja sem hafa beðið um aðstoð fengið hana samþykkta og ættu samkvæmt því að vera í skilum og ekki teljast í vanskilum. Við erum að tala um að langt yfir 90% þeirra sem hafa sóst eftir að fá greiðslufrest hafa fengið það samþykkt.

Varðandi hlutastarfaleiðina get ég tekið undir að það hefði verið heppilegt að vera kominn með frekari útfærslu á þeirri leið þar sem hún er tímabundin og rétt rúmur mánuður þar til henni á að ljúka samkvæmt lögum. Við erum með starfshóp að störfum til að skoða ólíka valkosti fyrir það sem á að taka við. Við þurfum að láta nýjar lausnir tala inn í þennan breytta veruleika, þ.e. þá staðreynd að mjög litlar líkur eru á því að margir ferðamenn komi hingað í sumar og það hefur verulega mikil áhrif, ekki bara á hrein ferðaþjónustufyrirtæki heldur alls konar fyrirtæki upp um allar götur allt í kringum okkur. Einn aðili talaði við mig í dag sem þurfti hreinlega að loka verslun sinni hér steinsnar frá þar sem við stöndum og þar eru tekjurnar 0, en standa þarf undir leigugreiðslum og menn sjá ekkert fram á það að sá rekstur taki við sér þar sem hann er borinn uppi af komum ferðamanna. Við þessu þarf að bregðast.

Það er eitt varðandi hlutastarfaleiðina sem við þurfum að vera meðvituð um en það eru forsendurnar fyrir gerð hlutastarfssamnings og af hálfu launamanns frá upphafi og breytingar á því fyrirkomulagi á þeim tíma sem samningurinn átti að gilda.