150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin. Ég held, þó að það sé ekki efnisatriði þessa tiltekna máls sem hér er til umræðu, að þetta tengist allt svo nánum böndum. Ég held því að mjög mikilvægt sé einmitt að forsendur samningssambandsins um hlutabótaleiðina verði teknar til skoðunar. Þó að einhverjum hugnist það illa held ég að mikilvægt sé að skoða það að horft verði meira til þess að þetta sé beinn stuðningur við fyrirtæki, einfaldlega vegna þess að án fyrirtækjanna er ekkert ráðningarsamband að vernda.

Ég vona bara að þessi endurskoðun gangi vel og vel gangi hjá þeim hópum sem vinna hana og áhugavert væri að heyra hverju fram vindur því að þetta er það atriði sem er rekstraraðilum mjög ofarlega í huga sem standa frammi fyrir algjöru tekjufalli núna, eru í mestu vandræðum með að standa undir 25% launagreiðslum, eiga ekki nokkurn möguleika á að standa undir öllum öðrum greiðslum, að sjá síðan fyrir sér 100% launagreiðslur í þrjá mánuði til starfsmanna sem öllum er ljóst í dag að verður mögulega ekki þörf fyrir innan þess tiltekna rekstrar þegar ferðamannafjöldinn verður farinn úr þeim rúmum tveimur milljónum sem hann hefur verið í niður í kannski allt aðra tölu fyrstu misserin eftir að ferðaþjónustan kemst þó af stað að einhverju marki aftur.