150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga er til komin vegna sérstakra áhyggna af stöðu fjölmiðlanna og hún er til viðbótar tillögum sem liggja í þinginu og byggja annars vegar á fjárlagaheimild upp á 400 milljónir og hins vegar á frumvarpi sem liggur í nefnd. Ef ekki kemur til sérstök fjárheimild til viðbótar við þá sem er til staðar í fjárlögum þarf að tryggja hana, ætli menn að ljúka báðum þessum verkefnum á þessu ári. Hérna er í raun og veru verið að stíga inn í þá stöðu sem hefur skapað ákveðna óvissu og leiðir af því að málið hefur ekki klárast. Ég vil segja: Hvað sem öðru líður ætlum við að tryggja að lágmarki þessa fjárhæð á árinu 2020 og við viljum helst koma henni frá þinginu sem allra fyrst. Ég sé fyrir mér samtal við menntamálaráðuneytið og ráðherrann undir þinglegri meðferð þar sem verður farið nánar ofan í saumana á því hvernig slík reglugerð gæti litið út, hvaða hugmyndir ráðherrann hefur um það. Ég hef almennt verið mikill talsmaður þess þann tíma sem ég hef setið hér á þingi að heimildum til að ákvarða mikilvæg atriði í reglugerðum eða sérstaka útfærslu ráðherra séu einhver mörk sett. Við erum hér með mjög opið ákvæði sem mér finnst kalla á að einhver skýrari svör komi.

Hins vegar kemur þetta mál alls ekki í veg fyrir að þingið komist að niðurstöðu um afgreiðslu hins þingmálsins. Það er alveg sjálfstætt ákvörðunarefni hvenær það þingmál ætti þá að taka gildi, hvenær lögin ættu að taka gildi, hvort vilji þingsins stendur til þess að láta það mál gilda frá síðustu áramótum eða næstu áramótum eða miðju ári eða haustinu eða hvenær. Samspil þessara tveggja úrræða ræður því þá hversu mikla fjárheimild þarf (Forseti hringir.) í heild sinni vegna ársins 2020 til að mæta þeirri niðurstöðu sem þannig fæst.