150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:07]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Það er alveg ljóst að þetta mál verður rætt frekar.

Mig langar að nota mínútuna sem ég á eftir til að tala um nýsköpun og endurgreiðsluheimildirnar, þ.e. hækkun á þakinu og aukningu á hlutfalli endurgreiðslna. Það kemur fram í máli hæstv. ráðherra að heildarkostnaður sé metinn á um 3 milljarða kr. og svo segir ráðherra með réttu: En heildaráhrifin eru jákvæð. Og þá langar mig til að spyrja af hverju er bara verið að tala um árin 2021 og 2022? Af hverju nota menn ekki tækifærið hér í dauðafæri að gefa vel í nýsköpun til lengri tíma litið? Ég held að við séum öll sammála um að það er fjárfesting sem margborgar sig. Við höfum oft talað um, m.a. hér í þessum stól, að tímabært sé að spýta raunverulega í og við vitum líka að tímabundin innspýting í nýsköpun í frumkvöðlastarfsemi er a.m.k. mun síður líkleg til að skila árangri (Forseti hringir.) en ef vegurinn yrði lagður til lengri framtíðar með þessu. (Forseti hringir.) Ég hef einlægan áhuga á að vita hvort það hafi ekki verið mögulega rætt að breyta þessu til lengri tíma.