150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þegar allt er saman tekið sjáum við að við höfum verið í samfelldu átaki til að styrkja rannsóknir, þróunarstarf og nýsköpunarstarf á Íslandi undanfarin ár. Við sjáum það í raun og veru breytast fyrst með stórauknum framlögum inn í samkeppnissjóðina. Í ríkisstjórninni sem tók við á árinu 2013 var eitt af forgangsmálunum að koma stórauknum fjárhæðum inn í samkeppnissjóðina. Síðan höfum við breytt lagaumhverfinu mjög verulega. Við erum nýlega búin að setja sérstaka innspýtingu í samkeppnissjóðina með fyrsta aðgerðapakkanum og hérna erum við að stíga enn frekari skref. Ég tel að með því að láta úrræðið gilda fyrir þetta og næsta rekstrarár, þessa hækkun á viðmiðunarfjárhæðum, þá munum við geta örvað fyrirtæki til að skapa (Forseti hringir.) enn fleiri störf í landinu. Það er sjálfsagt að meta það bara á næsta ári hvernig til hefur tekist og taka þá umræðu um það hvort við eigum að halda áfram.