150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum sammála um mikilvægi þess að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk og vonandi mætir þessi heimild, sem í sjálfu sér felur ekki í sér neina nýja fjármuni en mætir ákveðnu tekjutapi sem fyrirséð er hjá jöfnunarsjóðnum, brýnni þörf í þessum málaflokki með þeim hætti að menn geti fært til fjármuni.

Varðandi nýsköpunarmálin og heimildir lífeyrissjóðanna til fjárfestinga er í sjálfu sér ekki verið að gera annað en að veita lífeyrissjóðunum heimild til að taka ákvörðun um slíka fjárfestingu. Ég held að þetta sé eftir sem áður mjög hóflegt hlutfall af heildarfjárfestingu lífeyrissjóðanna. Þó að þetta sé há heildarfjárhæð verður hún að skoðast í samhengi við heildareignir sjóðanna. Það er spurt hversu miklum fjármunum ríkissjóður vilji sjálfur kosta til. Ja, það er ríkissjóður auðvitað að gera með ýmsum ívilnandi aðgerðum þar sem hann veitir fyrirgreiðslu eða skattafslætti og annað þess háttar. Við höfum hér í dag verið að ræða rannsóknar- og þróunarstarfið. Þar erum við með sérstaka skattalega hvata og með ákveðnum hætti er ríkissjóður þannig óbeint að taka afstöðu til þess hversu miklu hann telji réttlætanlegt að verja í þessum tilgangi. Síðan erum við með hugmynd að nýjum sjóði, Kríu, sem fær aukið fjármagn. Mjög miklar vonir eru bundnar við að vel takist til með stofnun þess sjóðs sem verður í hlutverki með fjárfestum þar sem einkageirinn hefur tekið ákvörðun um að veðja á ákveðnar hugmyndir til nýsköpunar. Það er margt nýtt við þá hugmyndafræði og við bindum miklar vonir við þann opinbera fjárfestingarsjóð til framtíðar.