150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og tek undir það sem fram kom um að það hljóti að þróast með þeim hætti að þingið vilji hafa meiri aðkomu að því hvernig reglurnar verða útfærðar. Hitt atriðið sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um snýr að endurgreiðslu virðisaukaskatts til sveitarfélaga. Ég fagna þessu ákvæði mjög og tel þetta virkilega góða viðbót við þá breytingu sem gerð var á lögum um virðisaukaskatt um endurgreiðslu af vinnu á verkstað í tengslum við fyrsta aðgerðapakkann. Kemur til greina í huga hæstv. ráðherra að fella þarna undir vinnu við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga? Það voru lög í gildi sem tryggðu endurgreiðslu virðisaukaskatts af fráveituframkvæmdum sveitarfélaga þar til — ja, það er stolið úr mér hvenær þau runnu út en það er ekki langt síðan, þannig að formið er til. Það er mikil þörf á framkvæmdum. Það eru ætlaðar 200 milljónir í að styðja við svona framkvæmdir í framkvæmdapakkanum (Forseti hringir.) sem var samþykktur hér um daginn og það er nú varla upp í nös á ketti í þessu samhengi. Ég vil bara spyrja hæstv. ráðherra: (Forseti hringir.) Kæmi til greina að fella fráveituframkvæmdir undir þetta ákvæði? Það væri bæði einfalt og gott (Forseti hringir.) og formið er þekkt. Það eru gríðarlega umfangsmiklar framkvæmdir sem þessu tengjast og eru auðvitað mikið umhverfismál.