150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fráveituframkvæmdirnar skipuðum við sérstaka nefnd þar sem var aðkoma bæði fjármálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis og við skoðuðum valkosti í þessu. Ásetningur okkar er alveg skýr. Hann er að styðja sveitarfélögin í þessu. Ég er þeirrar skoðunar að sveitarfélögin muni ekki ráða við þetta, sérstaklega mörg þeirra sem eru smærri og hafa ekki burði fjárhagslega til að ráðast í svona stórar framkvæmdir þannig að það mun þurfa að koma stuðningur frá ríkinu. Niðurstaða starfshóps sem skoðuðaði þetta var sú að fara bara í beina styrki af fjárlögum. Fyrsta skrefið var tekið, eins og hv. þingmaður vísaði til, með því að taka frá fjármuni á þessu ári til að hefja þetta átak. Við sjáum fyrir okkur um tíu ára átak þar sem þarf að jafnaði að vera framlag beint úr ríkissjóði á fjárlögum og ef við stöndum við það, sem við gætum jafnvel gert samning um við Samband íslenskra sveitarfélaga, næðum við markmiðum okkar þó að við færum ekki virðisaukaskattsleiðina.