150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Hér eru mikilvægar aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar veirufaraldursins. Við í Miðflokknum erum jákvæð í garð flests sem er í frumvarpinu. Ég geri fyrirvara við stuðning til fjölmiðla, ekki það að við séum á móti þeim, alls ekki, heldur fyrirkomulaginu sem lagt er upp með varðandi þann mikilvæga stuðning. Ég kem nánar að því á eftir.

Ég ætla að byrja á því að fara yfir það sem kemur fram á bls. 5 í frumvarpinu þar sem rætt er um frestun skattgreiðslna lögaðila. Í fyrsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar kom heimild til handa fyrirtækjum að fresta því fram í janúar á næsta ári að skila staðgreiðsluskatti á allt að þremur greiðslum ásamt því að fresta skilum á virðisaukaskatti án sérstakrar álagningar. Auk þess er hér verið að víkka þetta út og, eins og segir í frumvarpinu, er ráðgert að ganga skrefinu lengra og gefa lögaðilum með takmarkaða ábyrgð kost á að fresta skattgreiðslu vegna 2019 og jafna á móti tapi ársins 2020 þegar það raungerist. Aðgerðin leiðir til þess að fyrirtæki sem sjá fram á tap á yfirstandandi ári geta sótt um frekari frestun á greiðslu tekjuskatts þar til álagning næsta árs liggur fyrir.

Þetta er mikilvægt úrræði sem ég held að skipti máli. Það sem ég vildi koma inn á er: Hvað svo, ef má orða það þannig, þegar kemur að því að fresturinn rennur út og standa þarf skil á þeim opinberu gjöldum sem heimild fékkst fyrir til að fresta? Ef ástandið versnar það mikið hjá þessum fyrirtækjum að þau geti ekki staðið við greiðslurnar þegar að því kemur, hvað gerist þá? Jú, þá standa menn frammi fyrir því að hafa framið skattalagabrot. Það er ósköp einfalt. Við því liggja sektir og fangelsisrefsing. Hjá fyrirtækjum sem hafa misst nánast allar tekjur og sjá fram á tekjuleysi næstu mánuði og jafnvel út árið getur valið staðið á milli þess að greiða laun eða greiða skatta. Ríkisstjórnin hefur ekkert gefið út um það hvort vanskil á frestuðum skattgreiðslum verði gerð refsilaus tímabundið á meðan ástandið er hvað verst. Ég held að það sé full ástæða til að skoða þetta vegna þess að það er alveg ljóst að einhver vandræði verða með að greiða þau gjöld sem frestur hefur fengist til að greiða. Það er bara ekki sanngjarnt í þessum aðstæðum að þegar yfir okkur dynur veirufaraldur sem enginn ber ábyrgð á, þurfi menn jafnvel að sæta refsingu fyrir að hafa reynt að nýta sér það úrræði sem hér er verið að tala um og síðan kemur á daginn að ekki var hægt að standa við það. Þetta þarf að skoða mjög gaumgæfilega í þeim aðgerðum sem á eftir að fara nánar yfir. Ríkisstjórnin hefur boðað fleiri tillögur. Ég legg áherslu á, herra forseti, að þetta verði skoðað.

Ég vil líka enn og aftur minnast á það sem ég hef minnst á áður, en það er greiðslustöðvunarúrræðið. Það er mjög mikilvægt úrræði á óvissutímum. Það þarf að endurskoða þegar lögbundin úrræði sem hægt er að nota í þessum aðstæðum fyrir fyrirtæki og heimili þannig að við þurfum ekki að fara í einhverja nýja umfangsmikla lagasmíð sem er verið að reyna að gera í flýti og síðan er hætta á mistökum o.s.frv. Það er til úrræði sem hægt er að nýta og það er greiðslustöðvun. Það sem þarf hins vegar að fá á hreint er hvort þessar aðstæður, þ.e. veirufaraldurinn, falli undir skilyrðin um greiðslustöðvun. Ég hef spurt hæstv. dómsmálaráðherra að því hvort ekki sé hægt að fá þetta í gegn, að veirufaraldurinn falli undir skilyrðin sem kveðið er á um í lögum um greiðslustöðvun. Það eru nokkuð ströng skilyrði til að fá greiðslustöðvun og það þarf að leggja fram trúverðuga áætlun um rekstur o.s.frv., og það er alveg ljóst að ekki er hægt að leggja fram slíkar áætlanir í þeim aðstæðum sem við erum í í dag. Þess vegna er eðlilegt að þessi þáttur, veirufaraldurinn og þessar fordæmalausu aðstæður, falli undir skilyrðin.

Hæstv. ráðherra svaraði því til að þetta yrði skoðað. Ráðherra hefur lagt fram frumvarp um rafræna stjórnsýslu þegar kemur að ýmsum ákvörðunum sem eru á hendi sýslumanns og þar var ekkert minnst á þetta úrræði. Ég hvet hæstv. dómsmálaráðherra til að fara yfir þennan mikilvæga þátt. Hann er til staðar í lögunum en það þarf að fá það skýrt hvort ekki sé hægt að láta þessar fordæmalausu aðstæður falla undir það ákvæði.

Í þessu frumvarpi er verið að efla nýsköpun, gefa lífeyrissjóðunum tækifæri til að koma þar að. Það er gott mál en ég vil í því sambandi minnast á að það er eðlilegt að mínum dómi að við skoðum hvort lífeyrissjóðirnir geti ekki komið að þessum aðgerðum og aðgerðapökkum í ríkara mæli. Þetta er eitt og sér ágætisúrræði sem þarna er lagt upp með en hins vegar er nauðsynlegt að skoða hvernig við getum aukið kaupmátt almennings með einhverjum hætti í þessum aðstæðum þannig að almenningur hafi meira á milli handanna sem yrði innspýting inn í hagkerfið. Fólk fari að eyða meiru, kaupa meiri þjónustu o.s.frv. Það hjálpar hagkerfinu að koma sér af stað aftur og allir vinna í raun og veru með því að kaupmáttur almennings aukist. Þá er spurning hvort hægt sé að koma því til leiðar að fresta t.d. eða lækka greiðslur iðgjalda í lífeyrissjóði tímabundið til að auka kaupmátt almennings. Hér þarf lagabreytingu til en það er full ástæða til að skoða það úrræði að mínum dómi. Ég nefni það sérstaklega vegna þess að hér er verið að ræða um nýsköpunarfyrirtæki og aðkomu lífeyrissjóðanna í þeim efnum, þ.e. fjárfestingarheimild lífeyrissjóðanna sem er liður í því að bæta fjárfestingarumhverfi nýsköpunar með því að auðvelda lífeyrissjóðunum að koma að stofnun þessara sjóða. Það er gott ákvæði.

Ég vildi einnig koma sérstaklega inn á rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla. Hér er lagt upp með breytingartillögu við lög um fjölmiðla, nr. 38/2011, þar sem lagt er til að mennta- og menningarmálaráðherra verði á árinu 2020 heimilt með reglugerð að útfæra fyrirkomulag á greiðslu sérstaks rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla vegna þess víðtæka rekstrarvanda sem steðjar nú að einkareknum fjölmiðlum vegna faraldursins, eins og segir í frumvarpinu. Hér er um 350 millj. kr. að ræða. Þetta er há upphæð en er í takt við það sem hefur verið rætt í hinu svokallaða fjölmiðlafrumvarpi. Nú er alveg ljóst að fjölmiðlar eru ekkert öðruvísi en önnur fyrirtæki sem hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna faraldursins og það þarf að mæta tekjutapi þeirra með einhverjum hætti frá hinu opinbera. Það er alveg ljóst og við í Miðflokknum styðjum heils hugar að það verði gert. Það er hins vegar spurning um útfærsluna. Hér er þetta í raun lagt í hendurnar á ráðherra með reglugerð. Maður þekkir nú ekki að ráðherra sé fengið svo víðtækt vald vegna þess að það er mjög vandasamt að fara yfir það með hvaða hætti hver fjölmiðill kemur að því að fá þessa styrkveitingu. Það þarf náttúrlega að horfa til starfsmannafjölda o.s.frv., margir þættir sem koma þar inn. Þess vegna tel ég óeðlilegt að þetta verði lagt í hendur ráðherra með þessum hætti.

Það er hins vegar nauðsynlegt að bregðast hratt og vel við vegna þess að fjölmiðlar nú á tímum eru sérstaklega mikilvægir í allri þeirri upplýsingagjöf sem við höfum fengið í tengslum við veirufaraldur, mjög mikilvægt hlutverk sem fjölmiðlar hafa gegnt þar. Að sama skapi hefur áhorf aukist, einstaklingar eru að nýta sér þá þjónusta sem fjölmiðlar veita í ríkara mæli en áður, en á sama tíma hafa tekjur fjölmiðla dregist verulega saman, auglýsingatekjur o.s.frv. Það er brýnt að bregðast við en með þessum hætti tel ég að verið sé að flækja málið og gera það jafnvel tortryggilegt hvernig á að finna það út og úthluta þessum styrkjum. Við höfum lagt áherslu á eftirlit, við höfum verið að ræða hér svokölluð brúarlán og núna stuðningslánin og nefndir hafa verið skipaðar til að hafa það eftirlit með höndum, en hérna er þetta bara lagt í hendur ráðherra sem á að setja reglugerð. Þetta teljum við að verði að fara mun betur yfir og gangi ekki upp eins og það er sett fram.

Að lokum, herra forseti, vil ég segja að hér eru nauðsynlegar aðgerðir í þessu frumvarpi sem er góðra gjalda verðar. Þarna eru t.d. tímabundna greiðslur vegna launa einstaklinga sem hafa sætt sóttkví. Það er mjög mikilvægt úrræði. Það á ekki að vera þannig að þeir einstaklingar sem hafa þurft að fara í sóttkví samkvæmt fyrirmælum stjórnvalda eigi að horfa upp á tekjutap, ríkissjóður verður að koma inn í það með einhverjum hætti. Þetta ákvæði er nauðsynlegt.

Síðan vildi ég að lokum nefna að það er mikilvægt að horft sé til landsbyggðarinnar þegar kemur að nýsköpunarmálum. Í fjáraukanum er komin fjárveiting í nýsköpunina en það er mikilvægt að horft verði þar til landsbyggðarinnar. Hún hefur verið út undan í nýsköpunarmálunum og ekki setið við sama borð og höfuðborgarsvæðið hvað það varðar en nú sem aldrei fyrr skiptir nýsköpun verulegu máli fyrir sveitarfélög á landsbyggðinni. Við erum að horfa upp á atvinnuleysi í sveitarfélögum eins og Vík í Mýrdal allt upp í 40% og það er mjög mikilvægt að þessir nýsköpunarstyrkir rati til landsbyggðarinnar einnig.