150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Þetta frumvarp er um margt gott og t.d. er ég mjög hrifinn af þeirri hugmynd, sem er í sjálfu sér nýstárleg og hugmyndarík, að gefa fyrirtækjum sem högnuðust á árinu 2019 möguleika á því að jafna á móti væntanlegu og/eða fyrirséðu tapi á þessu ári. Það er víst að þetta atriði mun verða mörgum burðugum kannski nauðsynleg brú sem þau þurfa til að komast yfir það tímabundna ástand sem við erum nú í og við óttumst mörg að verði mun lengra en menn ætluðu í fyrstu. Þetta er því mjög mikilvægt og mér þykir eiginlega dálítið varið í það að menn skyldu beita svona hugkvæmni við þetta atriði.

Ég vil einnig fagna þeim breytingum sem hér eru varðandi stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Ég talaði töluvert í fyrri ræðu minni í dag um nýsköpun sem byggist á þegar þekktum grunni; nýsköpun í matvælaframleiðslu og í tækniframleiðslu o.s.frv. Ég held að þarna sé verk að vinna. Ég ætla að ítreka það sem ég sagði í ræðu minni að ríkið ætti núna að koma inn með fjármagn, annaðhvort að setja það í gegnum fyrirliggjandi sjóði þannig að það hvetji menn til framkvæmda og fjárfestingar sem verður til þess að auka atvinnu, vegna þess að þegar þessu ástandi linnir þá þurfum við að vera þegar tilbúin með áætlanir og haldbær verkefni sem við getum snúið okkur beint að að fara og framkvæma og til að koma sem flestum að störfum og til þess að hagkerfið geti hægt og rólega rétt sig við.

Ég vil einnig taka undir það sem fyrri ræðumaður sagði um réttindi þeirra sem eru settir í sóttkví. Það liggur í hlutarins eðli að nógu þungbært er að sæta sóttkví yfir höfuð, en að hafa ofan í kaupið áhyggjur af launum og framfærslu á sama tíma er náttúrlega langt frá því gott. Þess vegna er mjög gott að þetta skuli sett hér inn.

Líkt og sumir aðrir sem hér hafa talað þá staldra ég mjög við þann kafla frumvarpsins sem fjallar um fjölmiðla, óháða fjölmiðla. Frumvarpið sem hér kom fram fyrr á þinginu um frjálsa og óháða fjölmiðla var langt í frá útrætt. Ef við værum að ræða hlutverk frjálsra og óháðra fjölmiðla í, eins og maður segir, eðlilegu ástandi, ekki því ástandi sem nú ríkir, verð ég að viðurkenna alla vega fyrir mig persónulega að ég sé ekki hvernig óháður fjölmiðill sem nýtur ríkisstyrkja getur kallað sig óháðan, herra forseti. Nú er ég að tala um eðlilegt ástand en ekki ástandið sem nú er uppi. Ég spyr: Hvernig myndi í eðlilegu ástandi fjölmiðill sem nýtur ríkisstyrkja fjalla á gagnrýninn hátt um annan atvinnuveg sem nýtur ríkisstyrkja, ef fjölmiðillinn er í sömu sporum og sá sem hann beinir gagnrýni að eða hefur eftirlit með? Þetta á við einstakar atvinnugreinar, menningarviðburði, íþróttafélög o.s.frv. Væri ástandið eðlilegt og hefði fjölmiðlafrumvarpið komið til frekari umræðu sem varð hérna fyrr á þinginu þá hefði maður alltaf spurt þessara spurninga. Maður hefði líka spurt hvers vegna ríkið ætti við eðlilegar aðstæður að styrkja óháða fjölmiðla. Ríkið styrkir þegar einn fjölmiðil um 7 milljarða kr. á ári, ef ég man rétt, og þykir mörgum nóg um. Þess vegna kom nú sú hugmynd fram sem við Miðflokksmenn höfðum á sínum tíma um að almenningi væri einfaldlega gefið það frjálsræði að geta valið hvert nauðungaráskriftin færi, sem er í dag á ríkisfjölmiðlinum. Hún gæti þess vegna farið á þann fjölmiðil sem menn kjósa líkt og gert er um sóknargjöld milli trúfélaga. En þarna er ég að tala um eðlilegt ástand. Að sjálfsögðu er það þannig, eins og hér hefur komið fram í nokkrum ræðum, að fjölmiðlar eiga meira erindi við okkur núna og hafa með höndum mikilvægara verkefni einmitt núna við að miðla upplýsingum til okkar á meðan á þessum atburðum gengur. Þess vegna er alveg sjálfsagt að styrkja fjölmiðla á þessu tímabili sem við erum að tala um þannig að þeir komist klakklaust yfir þennan áfanga eins og vonandi flest önnur fyrirtæki.

En ég verð að viðurkenna það, herra forseti, að líkt og aðrir er ég mjög hugsi yfir því að ráðherra eigi með reglugerð að útdeila 350 milljónum til fjölmiðla. Nú veit ég ekki af hverju þetta er gert með þessum hætti. Mig rennir í grun að hæstv. menntamálaráðherra hafi haft sitt fram um þetta mál í ríkisstjórninni í staðinn fyrir að láta þinginu það eftir hvernig þessum fjármunum skyldi útdeilt, eins og við gerum yfirleitt þegar um ríkisfé er að ræða. Ég get ekki neitað því, herra forseti, og nú veit ég ekki hvort hæstv. menntamálaráðherra sér sig í þessu hlutverki, að ég sé fyrir mér hæstv. menntamálaráðherra eins og álfamey í Disney-mynd sem flögrar um og dreifir gulldufti yfir þá fjölmiðla sem hún hefur velþóknun á. Þannig sé ég þetta fyrir mér og ég losna eiginlega ekki við þessa mynd úr hausnum. Mér finnst þetta mergurinn málsins, það er í sjálfu sér óeðlilegt með öllu að ráðherra skuli fá svona drjúg völd til að fara með opinbert fé. Þetta eru 350 millj. kr., mikið fé. Von mín stendur til þess að ráðherra fari ekki í þetta hlutverk sem ég lýsti áður og vænti þess að þegar málið gengur til nefndar muni nefndin taka þennan þátt sérstaklega til gaumgæfilegrar athugunar og gagnrýninnar umfjöllunar þannig að undið verði ofan af þessu ákvæði og Alþingi sjálft komi að því að setja ramma um það hvernig þessu fé verður úthlutað. Það er líka annar flötur á þessum teningi og sá er að fjölmiðlarnir allir verða að búa við þá vissu að þessum peningum sé skipt milli þeirra á hátt sem er hafinn yfir vafa og byggður á ákveðnum gildum — ég má ekki segja „kríteríum“, herra forseti, ég veit það — og úthlutunin sé byggð á rökum sem halda hvar sem er. Þess vegna geri ég alvarlega athugasemd við það að hæstv. menntamálaráðherra geti í sjálfu sér búið til svona mörg lítil RÚV með því að mylgra peningum í þessar áttir með reglugerð.

Ég vænti þess og vona að þetta atriði sérstaklega verði gaumgæft verulega vel í nefndinni vegna þess að að öðru leyti, eins og ég hef lýst í máli mínu að framan, er margt mjög gott í þessu frumvarpi. Um margt er það framsýnasta frumvarp og með hvað ferskastri hugsun sem enn hefur komið fram frá ríkisstjórninni í öllu þessu ferli, herra forseti, og það er mikill ljóður á því að þetta atriði skuli vera þar inni.

Að því sögðu ítreka ég að ég vænti þess að frumvarpið fái gaumgæfilega yfirferð í nefndinni. Nú segi ég aftur: Það hefði verið betra að hafa haft góðan tíma til að ræða þetta mál til fullnustu í þingsal. Nú erum við náttúrlega klemmd af því að þetta þarf að gerast eins fljótt og verða má til þess að forða fyrirtækjunum frá tjóni. Það er aldrei gott að afgreiða mjög stór mál í miklu hasti eins og við vitum, það er hætta á mistökum. Í þessu máli eru innbyggð ein mistök sem engu að síður er hægt að komast hjá ef menn leggja sig fram um það efni.

Að síðustu vil ég enn ítreka að skoðun mín og trú er sú að ríkisstjórnin eigi að kalla stjórnarandstöðuna fyrr að verki þegar undirbúin eru mál sem hafa áhrif á svona marga, svo stór mál sem um ræðir. Ég segi aftur bara í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum nú þegar, herra forseti, frá því að þetta ástand hófst, að stjórnarandstaðan hefur lagfært og leiðrétt mikið af þeim málum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og gert þau betri í góðri samvinnu í nefndum. Hvers vegna þá ekki að stytta sér leið og leggja þau fram í góðri samstöðu og góðu samráði? Ég ætla að ítreka það enn einu sinni að núverandi stjórnarandstaða hefur sannarlega staðið undir ábyrgð sinni við þessar erfiðu aðstæður og stjórnarandstaðan hefur hvergi verið að reyna að tefja mál eða standa í vegi fyrir því að nauðsynlegir hlutir verði framkvæmdir. Þvert á móti hefur t.d. Miðflokkurinn fagnað hverju því sem kemur frá þessari ríkisstjórn og lýst yfir vilja sínum til að styðja það og stutt það sem fram hefur komið og lýst vilja sínum til að leggja gott til mála. Ríkisstjórnin hefur ekki enn fundið hjá sér þörf eða hvöt til að þiggja það góða boð en ég vona að það gerist nú þegar enn herðir að og fleiri mál þarf að taka til. Núna þurfum við, ríkisstjórnin og við öll hér, að hætta elta vandamálið. Við þurfum að komast fram fyrir vandamálið og vinna þannig að það sem við gerum hér núna komi að fullu gagni en sé ekki gert í einhverjum flýti þegar í óefni er komið. Við eigum að vera á undan þeirri atburðarás. Við getum það vel. Við ráðum alveg yfir því hér á þinginu að geta gert það.