150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd munum fá þetta frumvarp til vinnslu og skoðunar, við munum kalla eftir umsögnum og ég geri ráð fyrir að þær muni koma margar. Viðbrögð hafa verið í dag við þeim frumvörpum sem við erum að ræða og við vinnum með þau. Eins og fram hefur komið í umræðunni og bent hefur verið á höfum við í þinginu tekið málin og bætt þau, lagað þau og unnið með þau í samráði og þó að vissulega hafi ekki allt verið tekið inn og samþykkt af því sem stjórnarandstaðan hefur lagt til hefur þó eitthvað af því ratað í frumvörpin sem við erum búin að afgreiða nú þegar. Þess vegna vil ég, herra forseti, segja í stuttri ræðu og leggja áherslu á hvað það er sem ég tel að við þurfum að skoða sérstaklega í nefndinni þegar við förum að vinna með málið.

Í fyrsta lagi vil ég nefna það sem kallað er í auglýsingu með þessum frumvörpum frekari sókn í nýsköpun og ég fagna því. En það sem ég tel að við þurfum að skoða þar sérstaklega er hvað það er sem kemur minnstu fyrirtækjunum best í þeim efnum. Er það endilega að færa hámarkið úr 600 milljónum í 900 milljónir eða úr 900 milljónum í 1.100 milljónir? Við þurfum að fara yfir það hvort heppilegra er að gera eða gera hvort tveggja eða hækka viðmiðunarhlutfallið enn frekar. Gert er ráð fyrir að það fari upp í 25% þegar kemur að rannsókn og þróun, endurgreiðslu á kostnaði við rannsóknir og þróun. En það má vera að heppilegra sé fyrir smærri fyrirtæki að þetta hlutfall verði hækkað.

Ég legg ríka áherslu á að við förum vandlega yfir það í efnahags- og viðskiptanefnd sem fjallar um frumvarpið og einnig hvort þetta ættu að vera svona tímabundnar ráðstafanir, þar sem talað er um, þegar verið er að auglýsa þessi úrræði, nýsköpun til framtíðar og nýsköpunin þarf einmitt að vera til framtíðar. Það verður nýsköpun, rannsóknir og þróun í atvinnulífinu sem mun lyfta okkur upp úr þeirri miklu lægð sem við erum í núna, ásamt símenntun og endurmenntun og að menntakerfið komi með í að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið. Það er þannig, herra forseti, að atvinnulíf okkar er of einhæft og við horfumst sannarlega í augu við það núna þegar stærsta atvinnugrein okkar, ferðaþjónustan, er í molum, auðvitað ekki bara hjá okkur heldur úti um allan heim. En við þurfum að horfast í augu við það hversu stór hluti þetta er af okkar atvinnulífi og undir hve stórum hluta af þjóðartekjunum sú atvinnugrein hefur staðið en stendur nú berskjölduð fyrir.

Þau úrræði sem eru komin og þau sem hafa verið kynnt hér í dag ná ekki yfir vanda þessarar stóru greinar. Hann er auðvitað misjafn eftir stærð fyrirtækja og hvort um er að ræða beina ferðaþjónustu, afþreyingu, gistingu eða afleidd störf. En vandinn sem blasir við er virkilega stór og taka þarf á honum með einhverjum hætti. Það er ekki gert í þeim frumvörpum sem lögð eru fram hér í dag. Í þeim samtölum sem við höfum átt við hæstv. fjármálaráðherra í andsvörum hefur ekki komið fram hvernig í ósköpunum eigi að ákveða hvort ferðaþjónustufyrirtæki verði rekstrarhæf þegar faraldurinn hefur gengið yfir vegna þess að ferðaþjónustan og þróun hennar er í algerri óvissu. Stjórnvöld þurfa auðvitað að segja hvert þau vilja stefna með þessa stóru atvinnugrein og það er ábyrgðarhluti hjá stjórnvöldum að sjá til þess að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið. Þessu er ekki svarað hér með neinum hætti. En ég fagna því að leggja eigi frekari áherslu á nýsköpun og endurgreiða fyrirtækjum það sem þau leggja í rannsóknir og þróun í ríkari mæli, en ég held að við þurfum að gera enn betur að því leyti.

Ég vil nefna, eins og aðrir hafa gert í dag, 9. gr. frumvarpsins sem fjallar um heimildir til reglugerðar til að útfæra fyrirkomulag á sérstökum rekstrarstuðningi til einkarekinna fjölmiðla. Það er fínt. Það er nauðsynlegt að koma sérstaklega til móts við einkarekna fjölmiðla á þessu stigi. Fjölmiðlarnir eru okkur mjög mikilvægir og ekki síst á þessum neyðartímum og mikilvægt aðhald fyrir stjórnvöld og fyrir okkur í samfélaginu.

Spurningin sem við þurfum að velta upp í nefndinni er: Er ástæða til að hafa þessa reglugerð svona opna? Ég held að við þurfum að leggjast yfir það. Af hverju þarf hún að vera svona opin? Vill löggjafinn ekki setja niður einhverjar frekari línur hvað þetta varðar?

Forseti. Þarna nefni ég það sem er í frumvarpinu en ég vil líka tala um það sem er ekki í frumvarpinu. Það er að vísu talað um virðisaukaskattsendurgreiðslu til sveitarfélaganna. Það er aðeins útvíkkað og það er gott vegna þess að mikilvægt er að sveitarfélögin fari út í framkvæmdir og viðhald í þessu ástandi og vinni þannig gegn atvinnuleysinu. Það er nauðsynlegt að gera.

En ég sakna þess, herra forseti, að ekki skuli vera gengið gegn þeim kynjahalla sem hefur verið í þeim úrræðum sem stjórnvöld hafa lagt til því að bæði konur og karlar eru atvinnulaus og reyndar er það þannig að tölurnar eru nánast jafnar, sem þýðir að það hallar á konur vegna þess að þær eru færri á vinnumarkaði. En það er ekki gert í þessum úrræðum.

Ég mun óska eftir umræðu um þetta í hv. efnahags- og viðskiptanefnd því að við getum með mörgum leiðum hvatt til viðskipta við greinar þar sem konur eru fjölmennar eins og í hárgreiðslu, snyrtifræðum, á saumastofum og fleira mætti telja. Við þurfum að fara yfir þetta í nefndinni. Það kemur bara ekki til greina af minni hálfu í þeim aðgerðum sem við erum að setja í gang, sem margar eru mjög góðar til að vinna gegn atvinnuleysi, að það halli svona á konur þegar kemur að þeim úrræðum.

Herra forseti. Ég hef miklar áhyggjur af sveitarfélögunum og taka þarf málefni þeirra föstum tökum. Ég er ánægð með að hvetja eigi til verkefna vegna aðgengis fatlaðra, nýta tímann til að fara í þau verkefni, það eru nauðsynleg verkefni og þau eru tímabær.

Hins vegar er það svo að sum sveitarfélög og sum landsvæði verða sérstaklega illa úti og það þarf að beina sjónum sérstaklega að ákveðnum svæðum. Það er að einhverju leyti gert í fjáraukalagafrumvarpinu, t.d. hvað varðar Suðurnesin, en ég get ekki séð að það sé nægilegt þar sem þar er fjórði hver maður atvinnulaus, alla vega í Reykjanesbæ. Hátt í 25% atvinnuleysi er komið þar. Ég get nefnt Mýrdalshrepp þar sem er 40% atvinnuleysi. Það eru fleiri svona svæði fyrir norðan sem þarf að horfa sérstaklega til og almennt eru sveitarfélög að tapa miklum tekjum, bæði vegna þess að útsvarið fellur þegar tekjur fólks falla og þegar tekjur ríkissjóðs dragast saman þá dregst jöfnunarsjóðurinn saman. En sveitarfélögin hafa lögbundnum skyldum að gegna. Þau vinna að afskaplega mikilvægum verkefnum fyrir börnin okkar og þjónusta þau. Þau reka leikskóla, grunnskóla, alls konar frístundastarf fyrir börn og þau sjá líka um málefni fatlaðra og að hluta til aldraðra. En þau eru í tekjufallinu líka hvött til að fara í framkvæmdir og mörg hver eru þau núna að skuldsetja sig en sjá ekki alveg fram úr hvernig þau geta síðan rekið sig næstu árin. Þetta er mál sem við verðum að taka föstum tökum. Það má vel vera að við þurfum að gefa okkur aðeins lengri tíma til að ákveða hvernig þetta á að vera en það er ekki hægt að skilja þau bara eftir og láta eins og þau geti farið í framkvæmdir, glímt við sitt tekjufall og staðið líka undir öllum þeim skyldum sem við viljum leggja á þau.

Hitt er, forseti, að í þessum málum sem við erum að ræða í dag er ekki minnst sérstaklega á heimilin. Við getum gert það á margvíslegan hátt. Við viðurkennum að það þarf að hjálpa fyrirtækjum og fyrirtækjum sem þurfa að standa undir föstum kostnaði og tekjurnar engar. Það sama á nefnilega við um heimili, það er fastur kostnaður við að reka heimili. Þegar fólk verður atvinnulaust, ég tala nú ekki um þegar það er komið á grunnatvinnuleysisbætur, sem eru rúmar 289.000, verðum við að grípa til ráðstafana og ekki er hægt að setja heimilin svo tugum skiptir á fátæktarstyrk. Þess vegna höfum við í Samfylkingunni lagt fram mál um að hækka atvinnuleysisbæturnar. Við verðum með öllum ráðum að vinna gegn fátækt í þessu ástandi.

Við í Samfylkingunni höfum einnig lagt fram frumvarp um að hækka lífeyri við þessar aðstæður. Ég veit að það eru lönd úti í heimi sem hafa einmitt gert þetta, hækkað atvinnuleysisbætur, hækkað lífeyrisgreiðslur bæði fyrir aldraða og öryrkja til að örva einkaneysluna. Það skiptir máli að örva einkaneysluna. Það er alveg öruggt að ef við hækkum þessar greiðslur fara þær auðvitað beint í að kaupa mat og nauðsynjavörur og það sem þarf fyrir börn heimilisins o.s.frv. Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld taki upp barnabótakerfið núna sem miðast við tekjur fólks frá árinu 2019 og breyti viðmiðunum þannig að fjölskyldur, barnafjölskyldur, sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli fái barnabætur núna þegar rekstur heimilanna er í miklum vanda, en ekki á næsta ári kannski. Ef engu er breytt á næsta ári gætu fjölskyldur fengið barnabætur en eru jafnvel búnar að rétta úr kútnum. Menn verða að þora að taka á þessu máli og breyta viðmiðunum þó að það sé tímabundið.

Að lokum vil ég nefna námsmenn. Ég fagna þeim aðgerðum sem kynntar hafa verið hér í dag til að koma til móts við námsmenn, bæði hvað varðar störf sem á að búa til og koma á í samvinnu við ríki og sveitarfélög en líka nýsköpunarverkefni og sumarnám og allt það sem hefur verið talað um hér í dag. En það er því miður ekki þannig að störf séu fyrir alla námsmenn sem þurfa á því að halda til að geta framfleytt sér og börnum sínum og haldið áfram námi líka. Við verðum að horfa til þeirra sérstaklega og þess vegna höfum við í Samfylkingunni lagt til að þeir fái atvinnuleysisbætur. Og við megum alls ekki gleyma iðnnemum sem eru í starfsnámi, það þarf að huga að starfsnámi iðnnema. Það þarf að tryggja með auknu fjármagni í vinnustaðanámssjóð að meistarar geti tekið við nemunum á samning og þó að þrengist um hjá meisturunum og fyrirtækjum þeirra verðum við að huga að þeim hópi líka, þeir eru á samningi og það þarf að greiða þeim laun.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu í 1. umr. en við eigum eftir að taka málið til ítrekaðrar skoðunar og umræðu í þingsal síðar.