150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun.

727. mál
[20:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en ég get ekki sætt mig við þetta. Ég get ekki sætt mig við það að ef einstaklingur eða hjón hafa keypt sér ferð, lagt peninga í hana og hafa svo jafnvel bæði misst vinnuna í dag, eru með núll tekjur, eigi að festa peningana þeirra í heilt ár. Þau þurfa kannski nauðsynlega á þeim að halda eftir að hafa staðgreitt ferð upp á milljón eða meira. Hvers lags ofbeldi er það? Hvers vegna í ósköpunum á ferðaskrifstofan að njóta þessa? Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að þeir einstaklingar sem eiga þessa peninga fái þá, þeir eiga fullan rétt á því og það er ekki víst að þeir hafi efni á því vera með peningana bundna hjá ferðaskrifstofu í heilt ár. Þarna getur tekið steininn úr fyrir viðkomandi, að hafa peninga fasta sem hann þarf nauðsynlega á að halda fyrir einhverju öðru, t.d. mat eða lyfjum. Þetta getur ekki staðist.