150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun.

727. mál
[20:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara byrja á að gera grein fyrir því að ég er einmitt með svona pakkaferð í endurgreiðsluferli, komið fram yfir tvær vikur. Ég myndi skilja það vel ef tíminn til að klára endurgreiðsluna yrði lengdur í þessu. Það eru nokkur atriði sem ég myndi vilja spyrja um varðandi inneignarnótuna. Það á að verða heimilt að innleysa inneignarnótuna 12 mánuðum eftir tímabilið, þá fær maður endurgreitt, ef ég skil þetta rétt. Þetta er í rauninni frestun á endurgreiðslu í allt að 12 mánuði. Ég sé t.d. ekki fram á að geta notað inneignarnótuna nema kannski ef kosningar verða þarnæsta haust, sem ég vona ekki því að það væri mjög galið. Önnur spurning er hvort hægt væri að hafa það á þann hátt, í staðinn fyrir að taka þennan rétt afturvirkt af fólki, eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson bendir á, að hafa val um að taka inneignarnótu sem gæti verið með einhverjum bónusum eða þvílíku eða fá endurgreiðsluna strax.