150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun.

727. mál
[20:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum þetta dæmalausa frumvarp um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, endurgreiðslur. Ég verð að segja eins og er að þegar ég sá þetta frumvarp fyrst þá varð ég eiginlega orðlaus. Það liggur við, ef maður væri í því skapi, að maður stæði bara orðlaus hér í næstu 15 mínútur yfir þessu frumvarpi. En það væri auðvitað fáránlegt þannig að ég ætla að bendi á þann eðlilega og sjálfsagða vafa, fullkominn vafa, á því að setja afturvirk lög. Hvenær ætlum við á þessu þingi að læra? Ég trúi því ekki að við ætlum í enn eitt skiptið að setja afturvirk lög. Við vitum að það þarf ekki nema einn sem fær gjafsókn og fer í mál, við vitum að hann vinnur það mál og það verður slegið á puttana. Það er svo arfavitlaust að ætla að bjóða fólki, sem á rétt á endurgreiðslu, algerlega lögbundinn rétt á að fá pakkaferðir sínar endurgreiddar og það sem það hefur lagt inn í peningum, upp á að fá inneignarnótu í staðinn. Svona skipti eru bara alveg úti. Það á ekki einu sinni að standa til boða að bjóða upp á þetta. Ég segi fyrir mitt leyti að ég er orðlaus. Ef við erum með viti hérna þá tökum við þetta frumvarp og rífum það, drögum það til baka, hættum við það. Komið með frumvarp þar sem ríkið tekur ábyrgð á þessu, verum ekki að setja venjulegt fólk, sem er kannski búið að safna í tvö, þrjú ár fyrir utanlandsferð, í þá aðstöðu að fá einhverja inneignarnótu í staðinn fyrir endurgreiðslu sem það á rétt á. Þetta er gjörsamlega út í hött og ég trúi því ekki að við ætlum að láta þetta fara óbreytt í gegn og láta eina ferðina enn fara í gegnum þingið afturvirk lög. Ég bara trúi því ekki.

Ég vona heitt og innilega að við sjáum til þess að frumvarpið verði dregið til baka og eitthvað allt annað verði gert og séð þess að fólkið fái þetta endurgreitt. Ég efast ekki um að það þarf að hjálpa ferðaskrifstofunum en þá kemur ríkið bara inn í það. Það er miklu skynsamlegra en að vera að senda þetta á fólk sem gerði það eitt af sér að það skipulagði ferð, borgaði inn á hana og reiknaði með að fara kannski í sumar. Nú á að segja við það: Nei, við ætlum að láta ykkur fá inneignarnótur og þið verðið bara að fara einhvern tímann á öðrum tíma. Það er ekkert víst að það henti fólki. Það er mjög ólíklegt að það henti. Það á ekki að stilla fólki upp við vegg, það á ekki að bjóða því upp á það. Það á þennan rétt og á að fá að nýta hann algjörlega.