150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

Matvælasjóður.

728. mál
[21:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 1257 sem er mál nr. 728. Þar er um að ræða frumvarp til laga um Matvælasjóð sem samið er í ráðuneyti mínu. Með frumvarpinu er lagt til að settur verði á fót nýr sjóður til að styrkja verðmætasköpun við framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi sem fái heitið Matvælasjóður. Við úthlutun styrkja úr sjóðnum er horft til þess að efla nýsköpun og ýta undir verðmætasköpun til að efla samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu. Sjóðnum verður um leið mögulegt að styðja við vöruþróun sem getur reynst mikilvægt, sérstaklega til markaðssóknar og þá ekki síst á erlendum mörkuðum.

Undirbúning að stofnun Matvælasjóðs má rekja til þingsályktunar nr. 40/149, um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna, sem samþykkt var á 149. löggjafarþingi. Með henni var ríkisstjórninni falið að hrinda í framkvæmd ýmsum aðgerðum sem miðuðu að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Á meðal aðgerða var að settur yrði á fótur sjóður með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu.

Tillaga um stofnun Matvælasjóðs hefur áður komið til þessa þings. Voru áform um að stofnun sjóðsins væri liður í víðtæku frumvarpi til laga um ýmsar breytingar á lögum um matvæli vegna innleiðingar EES-reglna og það varð að lögum nr. 144/2019. Ákvæði um sjóðinn voru hins vegar felld út úr frumvarpinu við meðferð málsins hjá atvinnuveganefnd þar sem talið var að þau þyrftu frekari vinnslu við. Veruleg tímapressa var á umræddu þingmáli vegna EES-skuldbindinga þannig að ég hafði fullan skilning á því að svo hefði farið sl. haust. Farið hefur verið yfir þau sjónarmið sem komu fram við þinglega meðferð umrædds frumvarps sl. haust og hef ég m.a. rætt við forsvarsmenn bæði Bændasamtaka Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, en gert er ráð fyrir því að þessir aðilar komi að stofnun Matvælasjóðsins með því að öðlast rétt til tilnefningar hvor á sínum aðila í stjórn sjóðsins.

Framlagning frumvarpsins nú er liður í ráðstöfunum hins opinbera til örvunar hagkerfisins í framhaldi af áföllum sem ekki þarf að rekja hér úr ræðustóli og varða heimsfaraldur vegna kórónuveirunnar. Ráðuneyti mitt hefur gripið til fjölmargra sértækra aðgerða í því skyni að lágmarka neikvæð áhrif á íslenskan landbúnað og sjávarútveg til skemmri og lengri tíma vegna þessa ástands sem skapast hefur með það að meginmarkmiði að skapa öfluga viðspyrnu þegar ástandið líður hjá og venjulegri tímar ganga í garð. Er stofnun Matvælasjóðsins eitt af mikilvægari málunum sem við horfum til í því sambandi. Það er reglulega ánægjulegt að segja frá því að í tillögum ríkisstjórnarinnar hefur verið ákveðið að leggja til við þingið að varið verði verulega auknum fjármunum til starfssviðs hins nýja sjóðs, um 500 millj. kr., á yfirstandandi fjárlagaári. Að mínu mati og vonandi fleiri hér í þingsalnum fer vel á þessu.

Til viðbótar við þetta mun á næsta ári bætast við sjóðinn það tannfé sem eru núverandi framlög af fjárlögum til annars vegar AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi, sem hefur um 250 millj. kr. til árlegrar ráðstöfunar, og hins vegar Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, sem hefur um 150 millj. kr. til ráðstöfunar. Mun nokkur sparnaður í rekstri verða af samruna þessara sjóða en hvor um sig hefur rekstrarkostnað sem nemur um 20 millj. kr. á ári.

Virðulegi forseti. Við fyrri meðferð tillagna um stofnun Matvælasjóðs bar nokkuð á því að horft væri mikið til fortíðar með hliðsjón af sögu Framleiðnisjóðs og AVS-sjóðsins. Mörkuðust umræður kannski helst til mikið af því. Samt er það svo að „án fræðslu þess liðna sést ei hvað er nýtt“, eins og mælti það skáld okkar Íslendinga sem var mestur heimsborgari. Þetta er því vel að mörgu leyti. Um leið verðum við hér í þingsalnum að reyna að horfa fram á við og takast á við þær áskoranir sem eru að birtast okkur og við munum glíma við á næstu árum.

Framleiðnisjóður var stofnaður árið 1966 og hefur komið að ýmsum nauðsynjamálum landbúnaðarins. Veittur hefur verið stuðningur við verkefni í jarðrækt, garðrækt, skógrækt, búfjárrækt og ræktun sporðfénaðar, auk þess sem bændur hafa verið studdir til ýmissa búháttabreytinga. Saga sjóðsins speglar kannski um sumt þróun landbúnaðarins yfir starfstíma hans. Var sjóðurinn ekki síst mikilvægur til að takast á við öngstræti offramleiðslunnar á níunda áratuginn. Þó að loðdýraeldi og fiskeldi níunda áratugarins sé ekki meðal glæstustu dæma um árangursríkar opinberar aðgerðir íslenskrar hagsögu bar þetta mark þeirrar viðleitni að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulíf í sveitum. Er kannski auðvelt að setjast í dómarasæti um þetta nú löngu síðar.

Stutt var við fjölþætt verkefni önnur og er vitað að mörg ferðaþjónustubýli nutu í upphafi nokkurs stuðnings frá sjóðnum. Það gat ótvírætt skipt miklu máli og verið fólki hvatning. Á síðustu árum hefur fjármunum sjóðsins aðallega verið varið til tveggja verkefnaflokka sem eru annars vegar hagnýt rannsókna- og þróunarverkefni í þágu landbúnaðar og hins vegar nýsköpun atvinnu á bújörðum til eflingar atvinnu í sveitum. Þó verður að athuga í þessu sambandi að fjárráð sjóðsins eru verulega takmörkuð. Sjóðurinn leið önn fyrir efnahagshrunið árið 2008 og árið 2011 var fjárveiting til hans skorin niður um 90% þannig að við lá að hann legðist af. Í áföngum hefur tekist að hækka til hans framlög sem þó nema ekki nema um 150 millj. kr., eins og áður sagði, sem samsvarar um 1% af heildarframlögum ríkisins til landbúnaðarmála. Er þetta umhugsunarvert, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið um þörf á nýbreytni í landbúnaði, þá sérstaklega matvælaframleiðslu.

Áður en ég vík að þeirri stefnu sem felst í tillögu um stofnun nýs Matvælasjóðs samkvæmt frumvarpinu vil ég einnig víkja nokkrum orðum að AVS-sjóðnum. Sá sjóður var stofnaður árið 2003 við nokkuð sérstakar aðstæður þegar sjávarútvegurinn og fiskvinnslan í landinu töldu sig hlunnfarin um möguleika til að sækja stuðning til nýsköpunar. Þetta hefur blessunarlega breyst til betri vegar og þá vísa ég ekki aðeins til starfs AVS-sjóðsins heldur einnig Tækniþróunarsjóðs sem hefur varið verulegum fjármunum til verkefna á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu.

Margt skýrir ágætan árangur íslensks sjávarútvegs og er ljóst að stofnun AVS-sjóðsins á sínum tíma hafði mikla þýðingu. Með því var aukinn kraftur lagður í rannsóknir og þróun sem skilaði bæði betri nýtingu á fiski á Íslandi og jók einnig verðmæti á hvert kíló sem veitt var. Þá hélst þetta í hendur við uppbyggingu öflugs þjónustuiðnaðar við sjávarútveginn.

Tölurnar tala sínu máli. Nýlega lét ég vinna fyrir ráðuneytið samanburð á verðmyndun á þorski milli áranna 1981 þegar aflinn var 461.000 tonn og 2017 þegar aflinn var nær helmingi minni. Á þessu tímabili ríflega tvöfölduðust útflutningsverðmætin en á móti kemur að leiðrétta þarf fyrir verðþróun þorskafurða á heimsmarkaði. Niðurstaðan er engu að síður sú að 35% af hækkun á útflutningsverði þorskafurða frá Íslandi á þessum tíma verða ekki útskýrð með almennri hækkun á þorski á heimsvísu. Þetta dæmi og þessir útreikningar sýna að við Íslendingar höfum náð miklum árangri í samanburði við önnur lönd til að þróa sjávarútveg okkar og skapa aukin verðmæti.

Virðulegi forseti. Það er óneitanlega fróðlegt og gaman á stundum að velta vöngum yfir því hvernig landbúnaður og sjávarútvegur hafa þróast og með hvaða hætti stuðningur stjórnvalda við verkefni í gegnum rannsókna- og nýsköpunarsjóði hefur nýst. Um leið er mikilvægt að horfa til framtíðar og skoða hvert við stefnum og hvernig við getum tekist á við nýjar áskoranir. Matvælaframleiðsla stendur frammi fyrir margþættum áskorunum á næstu árum. Má þar nefna ekki síst áhrif loftslagsbreytinga, fjölgun mannkyns, umhverfismál og vottanir framleiðslu. Þá hefur verið bent á þörf á því að styrkja smærri framleiðendur til vöruþróunar og ýta undir vöruvöndun. Það hvernig við getum aukið verðmætasköpun hér á Íslandi í bæði sjávarútvegi og landbúnaði er mikil áskorun fyrir komandi ár. Þetta hefur margvíslega þjóðfélagslega þýðingu fyrir almenning og má auk efnahagslegra sjónarmiða vísa til mikilvægis fæðuöryggis og þess að matvælaöryggi, þ.e. heilnæmi matvæla, verði áfram tryggt.

Svo sem greinir í skýringum með frumvarpinu sem hér er til umræðu var sl. haust settur á fót samráðshópur með fulltrúum Bændasamtaka Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Samhliða því var haft samráð við stjórnir AVS-rannsóknasjóðs og Framleiðnisjóðs, aflað upplýsinga og leitað sjónarmiða þeirra um áherslur hins nýja sjóðs. Ótvírætt er að sú vinna mun nýtast við fyrstu heildrænu stefnumótunina fyrir sjóðinn. Rætt var á þessum vettvangi um að við mótun stefnunnar mætti horfa til nokkurra áherslusviða sem væru aukin verðmæti matvælaframleiðslu, ný tækifæri til markaðssóknar og vitundarvakningar, líftækni og jafnframt smærri verkefni. Með því síðastnefnda var horft til verkefna hjá smáframleiðendum sem og verkefna sem gætu notið stuðnings til að gera fyllri umsóknir um frekari stuðning úr Matvælasjóði eða öðrum opinberum sjóðum.

Í frumvarpinu kemur jafnframt fram að horft er til þess að önnur stefnumótun muni nýtast við mörkun áherslumála og stefnu fyrir Matvælasjóðinn. Hér vil ég nefna að í ráðuneyti mínu hefur verkefnið Matarauður Íslands m.a. unnið að því að styrkja innviðastoðir matar í ferðaþjónustu og ýtt undir aðgerðir sem efla áhuga á íslenskri matarmenningu og eftirspurn eftir stað- og svæðisbundnum mat. Því verkefni lýkur í lok þessa árs og mikilvægt er að fylgja eftir því góða starfi sem þar hefur verið unnið með þátttöku fólks í öllum landshlutum. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi vöru- og þjónustuþróun í matvælatengdum greinum með áherslu á íslenskt hráefni og stuðning við matarfrumkvöðla, hvort heldur til sjávar eða sveita.

Þá var að mínu frumkvæði hafin vinna við matvælastefnu fyrir Ísland. Mikilvægt er að Matvælasjóður taki tillit til áherslna og aðgerða sem þar verða markaðar.

Mér er kunnugt um að meðal helstu aðgerða til verðmætasköpunar, samkvæmt drögum að matvælastefnunni, er raunar að nýr matvælasjóður taki til starfa. Sjóðurinn skal hafa að markmiði að styðja við nýsköpun, vöruþróun, aukið virði, sjálfbærni og aukna samkeppnishæfni matvælaframleiðslunnar. Hefur því stofnun Matvælasjóðs einnig verið til umræðu á vettvangi matvælastefnunnar. Ég vonast til þess að vinnu við matvælastefnuna fyrir Ísland muni ljúka innan skamms.

Virðulegi forseti. Ég mun undir lok máls míns víkja nokkrum orðum að texta frumvarpsins. Frumvarpið er einfalt að gerð enda er því ætlað fyrst og fremst að veita fullnægjandi heimildir til frekari starfa á vettvangi nýs sjóðs. Mælt er fyrir um meginhlutverk sjóðsins, skipan í stjórn hans, skyldur og ábyrgðir stjórnar sem og heimild til setningar reglna um úthlutun og fleira. Er frumvarpið samið að nokkru leyti með hliðsjón af reglum þeim sem gilt hafa um AVS-sjóðinn, auk þess sem litið var til lagareglna um aðra opinbera sjóði til hliðsjónar.

Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn að fara nánar yfir og ræða einstaka þætti frumvarpsins hér á eftir. Um tekjuáhrif frumvarpsins fyrir ríkissjóð er fjallað í skýringum með frumvarpinu en ég hef þegar gert grein fyrir fjármögnun hans og þeirri fjárveitingu sem lagt verður til að veitt verði til hans á fjárlagaárinu 2020. Vísa ég annars nánar til þess sem í skýringum segir.

Virðulegi forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.