150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

Matvælasjóður.

728. mál
[21:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp um Matvælasjóð. Eins óánægður og ég var með frumvarpið sem við ræddum hérna síðast er ég ánægður með þetta, sérstaklega vegna þess að þarna erum við loksins að taka á því og taka vonandi fyrsta skrefið í þá átt að við verðum sjálfbær með matvælaframleiðslu. Ástandið í þjóðfélaginu hjá okkur núna sýnir hversu nauðsynlegt það er fyrir okkur. En það er eitt sem gerir mig svolítið orðlausan í frumvarpinu, það eru þessar lágu upphæðir. Við erum að tala þarna um 500 millj. kr., það er kannski ekkert lágt en setjum það í samhengi við það sem vorum að tala um fyrr í kvöld, um nýsköpun og 1% af eignum lífeyrissjóðanna, 50 milljarða. Þetta er bara 1% af því, þannig að þetta er smáupphæð en ætti að vera margfalt stærri upphæð.

Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann geri sér vonir um að fá einhverja fjársterka aðila að þessu. Það segir sig sjálft að fyrst að Hollendingar geta framleitt rosalega mikið af grænmeti og verið með gróðurhús og allt saman, þá eigum við að geta það líka. Það er orðin mikil og góð þróun t.d. í að frysta grænmeti og annað þannig að við ættum að geta framleitt margfalt meira og á mjög hagkvæman hátt, ég tala nú ekki um ef við getum selt grænmetisbændum og öðrum rafmagn á svipuðu verði og stóriðjum. Það yrði nú bara strax betra að rafmagnið færi til þeirra vegna þess að það er vistvæn framleiðsla, mun vistvænni en það sem flestar stóriðjur eru að framleiða. Ég spyr ráðherra hvort hann reikni ekki með að það verði hægt að stórauka fjárframlög í þetta og gera vel í þessum málum.