150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

Matvælasjóður.

728. mál
[21:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og ég get ekki verið annað en innilega sammála honum, líka þegar við horfum til þess hversu þróunin er hröð, t.d. bara í fiskiðnaði. Við erum farin að nýta allt hráefnið margfalt betur, eins og roð sem sáraumbúðir og alls konar. Hugmyndaflugið vantar ekki. Ég hef ekki áhyggjur af því að bæði bændur og aðrir geti ekki virkjað og fengið hugmyndir og komið hlutum í framkvæmd. Þetta er það sem við þurfum á að halda núna vegna þess að við erum kannski að treysta allt of mikið á ferðaiðnaðinn eins og hefur komið í ljós og treysta á að það komi fleiri og fleiri ferðamenn og þeir eigi að nýta afurðir okkar. Ég held að við þurfum að einbeita okkur að því að nýta afurðir okkar sem best sjálf á allan hátt og koma þar af leiðandi líka í veg fyrir matarsóun, sem er því miður svolítið stór pakki. Þessar stóru hugmyndir um risagróðurhús eru frábærar hugmyndir. En þá þarf auðvitað líka að hanna þessi hús þannig að þau þoli íslenska veðráttu. Það hefur verið svolítið vandamál. Ég óttast það ekki að við getum ekki, ef við viljum, orðið rosastórtæk. Við vitum það sjálf að grænmeti framleitt á Íslandi er annað grænmeti en það sem við erum að flytja inn. Ég finn a.m.k. muninn, það fer ekki á milli mála. Ég get ekki fullyrt fyrir aðra en gæðin eru góð og hugmyndirnar nægar þannig að ég styð þetta heils hugar og við verðum að sjá til þess að spýta í og setja meiri pening í þetta.