150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

útfærsla brúarlána og fleiri aðgerða.

[13:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Það er ánægjulegt að sjá að sú mikla gagnrýni sem barst vegna annars aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar skuli hafa skilað sér til ríkisstjórnarinnar að því marki að hún boðaði skyndilega til fundar til að bæta við þær aðgerðir. Ég held að óhætt sé að segja að það hafi bæst óvænt við og að því marki að ekki vannst tími til að setja þingflokka stjórnarflokkanna inn í það hvað þeim væri ætlað að samþykkja í framhaldinu. Kannski má segja að ríkisstjórnin sé að fikra sig áfram með að stjórna með tilskipunum.

Hvað sem því líður er aðalatriðið að aðgerðirnar séu í lagi og til þess fallnar að bregðast við ástandinu. Þetta er vissulega mikilvæg viðbót við það sem kynnt var fyrir örfáum dögum og jákvætt að ríkisstjórnin skuli hafa séð ástæðu til að bregðast við þeirri gagnrýni sem barst á þær aðgerðir. En þó að margt sé jákvætt í þessu vakna líka spurningar, sérstaklega um það að þetta sé enn óútfært að miklu leyti. Þá rifjar maður upp fyrsta aðgerðapakkann sem var sagður vera með umfang upp á 230 milljarða, þó að svo hafi ekki alveg reynst vera þegar betur var að gáð. Stærsta aðgerðin þar fól í sér svokölluð brúarlán og núna, næstum því sex vikum seinna, virðast þau ekki enn vera komin til framkvæmda.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Hvenær verður búið að útfæra það sem hæstv. ráðherra kynnti í morgun? Hvenær kemst það til framkvæmda? Hvenær, ef einhvern tímann, komast brúarlánin til framkvæmda, meginaðgerðin í fyrsta aðgerðapakkanum? Hvenær verður hún framkvæmd?