150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

Matvælasjóður.

728. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með frávísunartillögu um frumvarp til laga um Matvælasjóð frá 1. minni hluta atvinnuveganefndar. Fyrst er þetta að segja um breytingu á ýmsum lögum um matvæli.

Með frumvarpinu er lagt til að AVS – rannsóknasjóður í sjávarútvegi og Framleiðnisjóður landbúnaðarins verði sameinaðir í nýjan sjóð, Matvælasjóð. Gert er ráð fyrir að veita 500 millj. kr. til stofnunar sjóðsins sem verði úthlutað á þessu ári, samanber frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, 724. mál, á þskj. 1253.

Á 150. löggjafarþingi samþykkti Alþingi lög um breytingu á ýmsum lögum um matvæli, nr. 144/2019. Við meðferð málsins gerði 1. minni hluti m.a. athugasemdir við stofnun Matvælasjóðs í ljósi þess að hlutverk Framleiðnisjóðs og AVS – rannsóknasjóð hefðu verið ólík hingað til og ekki hefði verið sýnt fram á að ávinningur yrði af sameiningu þeirra. Vegna þess og annarra atriða var lagt til að frumvarpinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar (318. mál, þskj. 683). Meiri hlutinn lagði síðan til að fella brott ákvæði sem mæla fyrir um stofnun Matvælasjóðs og brottfall laga um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, samanber framhaldsnefndarálit í máli 318 á þskj. 711. Voru þær breytingar samþykktar. Þau ákvæði sem voru felld brott þá eru nánast samhljóða þeim ákvæðum sem nú er lagt til að verði að lögum og áréttar því 1. minni hluti þau sjónarmið sem komu fram í fyrrgreindu nefndaráliti 1. minni hluta.

Fyrsti minni hluti telur það hins vegar naumast viðeigandi þinglega meðferð að leggja nú fram mál sem áður hefur komið fram á þessu löggjafarþingi og nú þegar hlotið umfjöllun nefndarinnar. Engu máli skiptir þótt umrædd ákvæði tilgreindra laga hafi ekki fallið í atkvæðagreiðslu við meðferð málsins.

Hæstv. forseti. 1. minni hluti fagnar þeirri ákvörðun að veitt verði aukið fjármagn til verkefna á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs. Brýnt er að þetta fé renni með greiðum hætti til verkefna sem stuðlað geta að því að efla atvinnulíf landsmanna á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs. Ekki verður séð að sú tillaga sem hér liggur fyrir um stofnun nýs sjóðs til að hafa slík verkefni með höndum sé til slíks fallin. Leggur 1. minni hluti áherslu á að vandað sé til verka við skipulagsbreytingar af þessu tagi og telur hremmingar í efnahagslífinu nú vegna heimsfaraldurs kórónuveiru ekki gefa tilefni til að gera veigamiklar breytingar á núverandi sjóðakerfi sjávarútvegs og landbúnaðar. Slíkar breytingar þarfnast vandaðs undirbúnings, ekki síst vegna verkefnaskila núverandi sjóðakerfis og samræmingar þeirra verkefnaþátta sem sjóðirnir nú sinna og þeirra sem ætlunin er að sinnt verði í framtíðinni í nýju umhverfi á þessu víðfeðma sviði.

Að mati 1. minni hluta er undirbúningur málsins ekki með fullnægjandi hætti og ekki hefur verið sýnt fram á nægjanleg rök til grundvallar því að settur verði á fót nýr sjóður sem hafi m.a. það hlutverk að úthluta fjármunum þegar núverandi fyrirkomulag hefur reynst vel í þeim efnum. Í þessu samhengi er ekki úr vegi að nefna t.d. Matarauð Íslands og landbúnaðarklasann sem til skoðunar kæmi að fela það hlutverk að úthluta hluta af því fjármagni sem leggja á til málasviðsins. Auk þess telur 1. minni hluti að fyrirsjáanlegt sé að stofnun Matvælasjóðs verði til þess að tafir verða á því að fjármagn geti nýst til mikilvægra verkefna sem geta orðið liður í nauðsynlegri viðspyrnu í atvinnulífinu vegna þess efnahagsástands sem nú ríkir vegna Covid-19 veirufársins. Augljóst er að stofnun og upphafsaðgerðir taki tíma og þá þarf að veita nýrri stjórn ráðrúm til að móta stefnu og skilgreina verklag. Að auki er ávallt fyrir hendi sú hætta að utan verksviðs sjóðsins falli verkefnaþættir sem mikilvægir eru, annaðhvort þeir sem rúmast innan sjóðanna tveggja eða ný svið sem stjórnvöld vilja leggja áherslu á. Telur 1. minni hluti því auðséð að í slíkum tilvikum væri núverandi fyrirkomulag fljótlegra og skilvirkara enda m.a. mögulegt að breyta stefnu innan núverandi sjóða.

Hæstv. forseti. Með hliðsjón af framansögðu verður ekki séð að stofnun Matvælasjóðs sé aðkallandi í ljósi aðstæðna. Er því af hálfu 1. minni hluta ekki fallist á að hér ræði um mál sem tengist sérstaklega viðbrögðum við Covid-19 faraldrinum og eigi þar af leiðandi að hafa forgang í störfum Alþingis um þessar mundir.

Að öllu framangreindu virtu leggur 1. minni hluti til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Undir þetta ritar sá sem hér stendur, Sigurður Páll Jónsson, og hv. þm. Ólafur Ísleifsson.

Ég vil undirstrika að við í 1. minni hluta fögnum að sjálfsögðu þessum peningum, þeim 500 milljónum sem eiga að koma til viðbótar því sem fyrir er í sjóðunum, svo það fari ekki á milli mála. En áhyggjur okkar eru þær að þessir peningar komist ekki í vinnu eins fljótt og vel við stofnun þessa sjóðs þó að annað hafi komið fram í máli hv. formanns nefndarinnar. Því teljum við að óbreytt fyrirkomulag sjóðanna hefði verið betra að svo stöddu og þetta mál sé ekki hægt að kalla Covid-mál. Til að þessir peningar komist í vinnu hlýtur sá vettvangur sem nú er til staðar, þ.e. Framleiðnisjóður og AVS-sjóður, að vera augljósasti kosturinn. Að koma á fót nýjum sjóð sem kannski getur tekið til starfa í seinni partinn í sumar eða haust, hlýtur að vera síðri kostar í okkar huga.

Að þessu sögðu hef ég lokið máli mínu.