150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

Matvælasjóður.

728. mál
[16:03]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna í 2. umr. Hann kom inn á umsagnir sem hafa borist nefndinni í hennar störfum sem rétt er að veita athygli. Frumvarp þetta er ein af þeim hugmyndum sem ráðgert er að grípa til sem mótvægisaðgerð ríkisstjórnarinnar vegna niðurfellingar svokallaðrar frystiskyldu á kjöti til landsins. Við þekkjum þetta frystiskyldumál, það vonda mál, vil ég segja, og hvernig stjórnvöld sváfu á verðinum í okkar mikilvægu hagsmunagæslu fyrir landbúnaðinn. Með því að láta undan þrýstingi Evrópusambandsins og flytja inn hrátt kjöt hingað til landsins er verið að setja okkar góða og hreina landbúnað í mikla hættu.

Hugmyndin með frumvarpinu um stofnun nýs Matvælasjóðs er að efla nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu, sem er í sjálfu sér jákvætt. Auk þess er verið að leggja nýjum sjóði til 500 millj. kr. sem eru töluverðir peningar. En eins og hv. þm. Sigurður Páll Jónsson nefndi í nefndaráliti minni hluta þá spyr maður hvort ekki hefði verið skilvirkara og fljótlegra að setja þessa peninga í þá tvo sjóði sem er verið að sameina til að þeir gætu þá strax farið í það að úthluta þeim til mikilvægra verkefna í staðinn fyrir að stofna nýjan sjóð með því sem fylgir, það eru tafir sem fylgja því bæði hvað úthlutun og slíkt varðar. Maður veltir fyrir sér hvers vegna ekki var farin sú leið að setja þessa fjármuni strax í báða sjóðina og þá gætu þeir, eins og hv. þm. Sigurður Páll Jónsson nefndi, komist strax í vinnu, ef svo má að orði komast.

Með hugmyndunum í frumvarpinu er verið að sameina tvo sjóði, Framleiðnisjóð landbúnaðarins og sjóð sjávarútvegsins sem nefndur er AVS, sem stendur fyrir aukin verðmæti sjávarfangs og veitir styrki til rannsókna- og þróunarverkefna til að auka verðmæti sjávarfangs. Það er því verið að sameina tvo svolítið ólíka sjóði. Maður spyr: Hver er ávinningurinn? Mér finnst að því hafi ekki verið svarað nægilega vel í frumvarpinu og nefndaráliti meiri hlutans.

Það er verið að leggja niður Framleiðnisjóð landbúnaðarins, þann ágæta sjóð, vil ég segja, sem hefur verið nýsköpunar- og framfarasjóður landbúnaðarins í meira en hálfa öld. Ég vil aðeins staldra við framleiðnisjóðinn vegna þess að það er mörgum spurningum ósvarað, t.d. hvers vegna eigi að fara að leggja niður sjóð sem hefur almennt staðið sig mjög vel og styrkt víða um land mikilvæg verkefni í sveitum landsins, í landbúnaði sérstaklega. Nú á að leggja þennan sjóð niður og það eru í raun og veru engin rök fyrir því. Framleiðnisjóðurinn hefur veitt landbúnaðargeiranum margvíslega styrki, suma hverja sem ekki lúta beint að matvælaframleiðslu en eru mikilvægir í að treysta byggð vítt og breitt um landið. Hann hefur það að leiðarljósi í störfum sínum að landbúnaður sé afar víðtækt hugtak og mun víðtækara en orðið matvælaframleiðsla gefur til kynna. Sjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki í byggðalegu samhengi, sér í lagi í tengslum við styrkveitingar til nýsköpunarverkefna á vegum bænda. Framleiðnisjóður landbúnaðarins styður jafnframt við ýmis hagnýt rannsókna- og þróunarverkefni á sviði skógræktar, svo dæmi sé tekið, og landnytja og ýmis verkefni sem tengjast framþróun. Hann veitir ráðgjafarþjónustu fyrir bændur og sinnir margvíslegum fræðslutengdum verkefnum. Það er mjög mikilvægt að þessi verkefni verði ekki út undan í hugmyndum ríkisstjórnarinnar um nýjan Matvælasjóð. Maður skilur ekki alveg hvers vegna er verið að taka þessi verkefni frá þessum gamalgróna sjóði sem hefur þjónað sínu hlutverki mjög vel. Það er að mörgu að gæta í þessu og bændur eiga mikilla hagsmuna að gæta hvað varðar þennan sjóð.

Bændasamtökin sendu inn umsögn um frumvarpið og rakti hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir það í ræðu sinni. Bændasamtökin leggjast ekki gegn frumvarpinu en leggja hins vegar þunga áherslu á að landbúnaðinum verði tryggður sambærilegur hlutur í ráðstöfunarfé hins nýja Matvælasjóðs í samræmi við hlut framleiðnisjóðs í samanlögðum fjárhag hans og AVS-sjóðs. Sú hlutdeild verði skilgreind í búvörusamningi. Hér er verið að taka, að mínu viti, svolitla áhættu því að engin trygging er fyrir því að þau góðu verkefni sem Framleiðnisjóður landbúnaðarins hefur haft með höndum komi til með að skila sér í þennan nýja sjóð. Það held ég að séu stærstu áhyggjurnar hvað þetta varðar. Bændasamtökin leggja einnig þunga áherslu á að fjármagn til sjóðsins verði aukið til framtíðar en takmarkist ekki við þetta stofnframlag á árinu 2020. Maður veltir fyrir sér hvort þessi 500 millj. kr. innspýting, sem vissulega er mikilvæg í þennan geira, sé svona gulrót fyrir því að geta lagt niður þennan sjóð. En síðan vitum við ekkert um það hvað sjóðurinn hefur úr miklum fjármunum að spila árið 2021. Verið sé að láta þetta líta vel út í upphafi en svo er framhaldið óljóst. Bændasamtökin leggja áherslu á að áfram verði stutt við verkefni af þeim toga sem Framleiðnisjóður hefur stutt en tengjast ekki matvælaframleiðslu beint, þar með talin menntun og endurmenntun. Sjóðnum hefur einnig verið ætlað að styrkja búsetu í sveitum landsins til framtíðar eins og ég nefndi hér í upphafi. Það er eitt af hinum mikilvægu hlutverkum Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, ákaflega mikilvægt, og má ekki til þess hugsa að það fari forgörðum verði þessi sameining að lögum, enda trúi ég því ekki, herra forseti, að ríkisstjórnin vilji bera ábyrgð á því þó svo að áhugi hennar á landbúnaði hafi ekki verið mikill.

Það er sjálfsagt að efla nýsköpunarverkefni í íslenskri matvælaframleiðslu sem verður okkur sífellt mikilvægari. Við sáum t.d. við efnahagshrunið 2008 hversu innlend matvælaframleiðsla er og var okkur dýrmæt og við sjáum þetta núna á tímum veirufaraldursins. Vonandi læra þeir sem hafa verið talsmenn þess að flytja sem mest inn af matvælum af þessu og láta kannski af þeim endalausu kröfum sínum um að flytja sem mest inn af matvælum.

Það sem vantar í frumvarpið er að ekki er tekið á því hvernig við ætlum að nálgast þau viðfangsefni sem við mætum þegar rætt er um þau fjölmörgu tækifæri sem íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir. Sú víðtæka skilgreining landbúnaðar sem unnið er eftir hjá framleiðnisjóðnum, og ég rakti aðeins áðan, er nauðsynleg svo við getum nýtt þessi tækifæri. Breyttar neysluvenjur og hlýnandi loftslag skapa margvísleg ný tækifæri til matvælaframleiðslu á Íslandi, sér í lagi við ræktun og ekki má líta fram hjá öðrum tækifærum. Þannig má ekki gleyma því að landbúnaðurinn getur lagt mjög mikið af mörkum, ef ekki mest allra atvinnugreina, til verkefna er lúta að kolefnisbindingu. Þar býr ekki síst mikilvæg þekking sem getur nýst í þeim efnum innan stoðkerfis landbúnaðarins og síðan verkþekking bænda.

Þegar rætt er um stofnun sjóðs, eins og hér er lagt til, verður að hafa það að leiðarljósi að stór hluti styrkveitinga verður að nýtast grasrótinni beint. Þannig þjónar hann best hlutverki sínu. Þess vegna hefur maður áhyggjur af því, þegar verið er að sameina tvo ólíka sjóði eins og hér stendur til að gera, að þetta mikilvæga atriði verði ekki gaumgæft nægilega. Það veldur svolitlum áhyggjum að þarna eru komnar tvær ólíkar greinar sem hugsanlega geta farið að bítast um fjármagn sem verður örugglega eftir árið 2020 takmarkað að einhverju leyti þó að sú innspýting sem kemur núna sé jákvæð fyrir þessar greinar einar og sér. Framleiðnisjóður landbúnaðarins hefur lagt áherslu á að styrkirnir nýtist grasrótinni fyrst og fremst og nær helmingur úthlutaðs fjármagns sjóðsins hefur á undanförnum árum runnið til nýsköpunarverkefna á vegum bænda á bújörðum. Þetta eru atvinnuskapandi verkefni sem bændur standa fyrir eða í viðbót við hefðbundna landbúnaðarframleiðslu. Styrkir sjóðsins hafa leitt til frumkvæðis að verðmætasköpun og mörgum nýjum störfum til sveita. Má þar nefna uppbyggingu ferðaþjónustu og heimavinnslu afurða, smáiðnað og margt fleira.

Herra forseti. Ég fullyrði að víðsýni hefur ríkt í störfum Framleiðnisjóðs, hún hefur einkennt störf sjóðsins þegar kemur að styrkveitingum og sjóðurinn hefur ekki misst sjónar á mikilvægi þess að sveitirnar dafni til framtíðar. Það er gríðarlega mikilvægt. Þess vegna, þegar sameina á tvo ólíka sjóði fyrir sjávarútveg og landbúnað, veltir maður fyrir sér hvort hættan sé ekki sú að menn missi sjónar á þessu, t.d. því að sveitirnar dafni til framtíðar. Menn eru þá farnir að hugsa um fleiri atriði og eru ekki eins einbeittir í þessu mikilvæga hlutverki sem Framleiðnisjóður landbúnaðarins hefur ávallt gegnt í þau 50 ár sem hann hefur farsællega starfað. Sveitirnar þurfa á aukinni fjölbreytni í atvinnulífi að halda. Það sýnir sig enn betur núna þegar ferðaþjónustan er í óvissu.

Styrkir Framleiðnisjóðs landbúnaðarins eru og hafa verið öflug byggðaaðgerð. Við verðum að hafa það í huga. Það verður að hafa það að leiðarljósi þegar þessar hugmyndir í frumvarpinu eru ræddar. Þess vegna tek ég heils hugar undir það sem kemur fram í minnihlutaálitinu, sem hv. þm. Sigurður Páll Jónsson mælti fyrir, að maður sér ekki að það sé aðkallandi að sameina þessa sjóði hér og nú. Það þurfi að undirbúa þetta mál betur. Það einkennist svolítið af því að menn eru að flýta sér vegna þess að við erum að kljást við efnahagserfiðleika vegna veirunnar og það er verið að setja aukið fjármagn í þessar greinar. En ég ítreka það sem ég sagði fyrr í ræðu minni, herra forseti, að ég held að þessir fjármunir myndu nýtast betur með því að setja þá bara í þessa sjóði eins og þeir eru í dag og undirbúa þetta mál betur og rökstyðja það líka betur hvers vegna verið er að fara þessa leið. Ég tek undir það með hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni að ég sé ekki að þetta mál sé svona aðkallandi hér og nú. Það sem er fyrst og fremst aðkallandi er að þessir sjóðir hafi meira til umráða akkúrat núna í þessari óvissu og efnahagsástandi þar sem atvinnuleysið fer mjög ört vaxandi og við þurfum á allri nýsköpun og öðru slíku að halda og við þurfum að efla byggðirnar. Við höfum rótgróinn sjóð, Framleiðnisjóð, sem er í stakk búinn til að taka við auknum fjárveitingum og koma þeim hratt og vel út til sveitanna og til bænda og þeirra sem eiga rétt á að sækja um styrki í sjóðinn. Það sama má segja með styrkveitingar sjávarútvegssjóðsins. Ég held að fjármagnið komist hratt til skila með því að nota þá sjóði sem eru nú þegar til staðar og hafa verkferla og stjórnir sem eru þaulvanar því að úthluta þeim peningum sem sjóðirnir hafa til umráða. Með þessari aðgerð er verið að setja ákveðið flækjustig að mínu mati, stofna nýjan sjóð sem þarf síðan að komast í gagnið, kjósa nýja stjórn og allt sem því fylgir. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, nefndi að það væri nauðsynlegt að þetta gengi allt hratt fyrir sig og það er alveg rétt. En við höfum hins vegar leið til að láta þetta ganga enn hraðar fyrir sig, þ.e. með því að nýta það sem við höfum nú þegar til að sjá um að koma þessum mikilvægu fjármunum inn í þessar tvær mikilvægu atvinnugreinar, landbúnaðinn og sjávarútveginn.

Að lokum, herra forseti, verð ég að segja að það fylgir því mikil ábyrgð að ætla að sameina svo mikilvæga sjóði einmitt á þessum tíma. Ég held að það auki því miður flækjustigið og þess vegna sé nauðsynlegt að undirbúa málið betur og sjá til þess að það sé betur rökstutt og ákveðnum spurningum verði svarað hér og nú. Er hægt að auka strax í fjáraukalögum fjárveitingar til þessara beggja sjóða? Þá er það mál frá og hægt að koma þeim fjármunum strax til byggðanna, til landbúnaðarins og sjávarútvegsins, eins og ég nefndi. Þetta er mál sem ber þess merki að verið er að koma ákveðinni hugmyndafræði inn akkúrat á þessum tímapunkti. Sú hætta er alltaf fyrir hendi þegar menn vinna hratt — það þarf að vinna hratt í þeim efnahagserfiðleikum sem við erum í og bregðast hratt við til að lágmarka það tjón sem við stöndum frammi fyrir — að það komi niður á vinnunni sem verður að vera vönduð. Vinnubrögð verða að vera vönduð þegar á að sameina svo mikilvæga sjóði.

Þess vegna styð ég nefndarálit minni hlutans sem ég tel að sé unnið af skynsemi og er vel fram sett, hv. þm. Sigurður Páll Jónsson fór vel yfir það, og skýrir málið mjög vel. Hann kemur inn á það að affarasælast sé að vísa málinu einfaldlega til ríkisstjórnarinnar en leggur hins vegar áherslu á að fjármunirnir skili sér til þessara mikilvægu greina. Um það snýst málið á þessari stundu. Það sem skiptir mestu máli er að þessar greinar fái auknar fjárveitingar til að bregðast við vandanum. Við þurfum verulega á allri nýsköpun að halda. Nýsköpun býr til ný störf. Það er gríðarlega mikilvæg fjárfesting (Forseti hringir.) á þeim erfiðu tímum sem við búum við í dag og ég vona svo sannarlega að þetta mál fái farsæla niðurstöðu.