150. löggjafarþing — 94. fundur,  28. apr. 2020.

sjúkratryggingar.

701. mál
[18:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á stjórn og eftirlitsheimildum stofnunarinnar. Lög um sjúkratryggingar tóku gildi 1. október 2008 og ýmsar breytingar hafa verið gerðar á lögunum frá því að þau tóku gildi, m.a. í þá veru að auka jafnræði sjúkratryggðra þegar kemur að greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga í lyfjum og heilbrigðisþjónustu.

Eitt af aðalhlutverkum sjúkratryggingastofnunarinnar er að annast samningsgerð um kaup á heilbrigðisþjónustu og um endurgjald vegna hennar samkvæmt 39. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er gert ráð fyrir því að stofnunin annist alla samningsgerð um kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins, hvort sem um er að ræða þjónustu opinberra aðila eða einkaaðila. Lögin kveða á um skýrar heimildir til stofnunarinnar til eftirlits með starfsemi samningsaðila. Það er mikilvægt að tryggja með lögum heimildir stofnunarinnar til eftirlits með þjónustuveitendum þegar endurgreiðslur til sjúkratryggðra eiga sér stað, samanber 38. gr. laganna, þegar ekki eru í gildi samningar og er það lagt til í frumvarpinu.

Lagt er til að sjúkratryggingastofnunin hafi heimild til að hafa eftirlit með þeim þjónustuveitendum sem standa utan samninga en samkvæmt gildandi lögum hefur stofnunin heimildir til að hafa eftirlit með þeim þjónustuveitendum sem eru með samning en nauðsynlegt er að sama eftirlitsheimild sé fyrir hendi lögum samkvæmt þegar um er að ræða þjónustuveitendur sem standa utan samninga, bæði til að tryggja öryggi sjúklinga og sporna gegn misferli við uppgjör við stofnunina og sjúkratryggða.

Einnig er lagt til að heilbrigðisstarfsmenn sjúkratryggingastofnunarinnar geti kallað eftir nauðsynlegum hluta sjúkraskrár til að framkvæma eftirlit með samningum og reikningsgerð á hendur stofnuninni. Í lögum um sjúkratryggingar er tekið fram að þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem ábyrgð bera á vörslu sjúkraskráa, samanber lög um sjúkraskrár, nr. 55/2009, sé skylt að veita hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum sjúkratryggingastofnunarinnar þær upplýsingar og þau gögn sem stofnuninni eru nauðsynleg vegna eftirlitshlutverks hennar, samanber einnig 45. gr. laga um sjúkratryggingar. Þá sé hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum sjúkratryggingastofnunarinnar heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem nauðsynlegt er vegna eftirlits með samningum og reikningsgerð á hendur stofnuninni.

Í stað þess að skoðun fari fram á þeim stað þar sem sjúkraskrá er varðveitt er lagt til í frumvarpinu að stofnunin geti kallað eftir nauðsynlegum hluta sjúkraskrár. Um er að ræða breytingu á verklagi sem eykur skilvirkni og öryggi. Sjúkratryggingastofnunin hefur útbúið örugga leið fyrir heilbrigðisstarfsmenn til að senda þau gögn sem eru nauðsynleg þegar eftirlit fer ekki fram á starfsstöð. Sending gagna myndi fara fram í gegnum sérstaka vefgátt sem lýtur strangri aðgangsstýringu þar sem aðgangsheimild er tengd kennitölu heilbrigðisstarfsmanns. Heilbrigðisstarfsmaður mun þannig senda gögn með öruggum hætti til sjúkratryggingastofnunarinnar. Aðeins starfsmenn stofnunarinnar sem hafa heimildir til að skoða umrædd gögn hafa aðgang að þeim. Með þessu verklagi er tryggt að skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, séu uppfyllt. þ.e. að gögnin séu aðeins aðgengileg þeim aðilum sem hafa heimildir til að vinna með þau.

Virðulegi forseti. Að lokum er lagt til að ráðherra hafi möguleika á að skipa forstjóra stofnunarinnar án aðkomu stjórnar sjúkratryggingastofnunarinnar. Er sú breyting lögð fram í ljósi þeirrar ábyrgðar sem ráðherra ber á skipun forstjóra. Ljóst er að stjórnin ber ekki ábyrgð á skipun forstjórans og stjórnin ber ekki ábyrgð á rekstri stofnunarinnar eins og forstjóri. Því er lagt til að því verði breytt sem nú er í gildandi lögum, að stjórnin hafi aðkomu að skipun forstjóra, í það að stjórnin hafi ekki þá aðkomu, þ.e. að stjórnin hafi ekki það lögbundna hlutverk að leggja tillögu fyrir ráðherra um skipun forstjóra.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins sem hér er til umræðu og leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til velferðarnefndar og 2. umr.