150. löggjafarþing — 94. fundur,  28. apr. 2020.

sjúkratryggingar.

701. mál
[18:26]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta frumvarp sem hæstv. heilbrigðisráðherra mælir hér fyrir hefur að geyma ýmislegt sem mér finnst ágætt og annað sem mér finnst miður. Það er eins og gengur og gerist. Mig langar til að byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í forgangsröðun. Nú hefur töluvert verið rætt um hvaða mál eigi erindi inn í þingsal á þessum tímum samkomuhindrana og skertrar starfsemi þingsins. Niðurstaðan hefur verið að það séu fyrst og fremst Covid-tengd mál og síðan önnur stjórnarmál eftir atvikum. Mig langar aðeins að biðja hæstv. ráðherra að fara með mér yfir mál sem við þekkjum báðar vel og lýtur að þingmannamáli Viðreisnar sem ríflega þriðjungur þingmanna hefur stutt, er búið að fara í gegnum þinglega meðferð og bíður afgreiðslu úr velferðarnefnd og hefur talað beint inn í hjartað á hæstv. heilbrigðisráðherra ef marka má hvernig hún hefur talað um rétt viðbrögð við þeirri vá sem við stöndum frammi fyrir. Þar að auki felur frumvarpið í sér fulla heimild hæstv. ráðherra til að stýra með reglugerð hversu miklir fjármunir fara í það og hvaða hindranir eru settar.

Mig langar til að fá útskýringu hæstv. ráðherra á því af hverju það mál ætti ekki heima hér í salnum við þær aðstæður sem við búum við núna. Í umsögnum sem bárust þegar málið var í samráðsgátt var töluvert talað um persónuverndarmálin vegna ákvæða um aðgang að skjölunum, rafrænu gáttina og annað. Við eigum svo sem eftir að fara vel í gegnum þetta en það kemur skýrt fram að Persónuvernd vill gjarnan fá aðkomu að málum á fyrri stigum svo hún sitji ekki alltaf uppi næstum því með orðinn hlut, og ekki bara í þessum málum heldur mjög mörgum málum, ekki síst þeim sem fara síðan í þinglega meðferð í velferðarnefnd. Fengu þau (Forseti hringir.) aðgang að þessu máli? Var óskað umsagnar Persónuverndar við frumvinnslu á málinu?