150. löggjafarþing — 94. fundur,  28. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna launa þingmanna og ráðherra.

731. mál
[19:04]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir að hafa flutt hér ágætisræðu og hafa flutt þetta mál. Það er ekki ætlun mín að halda langa ræðu, alls ekki, vegna þess að ég held að það sé einmitt nauðsynlegt að hafa hraðar hendur í þessu máli og ég vona að formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Óli Björn Kárason, kalli til aukafundar í nefndinni til að hægt sé að afgreiða það hratt og vel. Nú veit ég ekki hvort fundur er í nefndinni í kvöld, það væri gott að vita hvort svo er. Af hverju? Jú, vegna þess að 1. maí er á föstudag og eins og við vitum þarf launakerfið að fá upplýsingar hratt og örugglega, þ.e. Fjársýsla ríkisins sem átti að greiða út þessa launahækkun 1. janúar sl. en gerði ekki. Einhverra hluta vegna dróst það í alla þessa mánuði þannig að ljóst er að það þarf að láta hendur standa fram úr ermum og afgreiða málið hratt og örugglega til að þingheimur geti sýnt þjóðinni að hann ætli að standa með henni. Við ætlum að standa saman í gegnum þennan brimskafl. Það er bara þannig.

Það hefur heldur betur verið um það rætt meðal ráðherra ríkisstjórnarinnar og meðal þeirra sem hafa verið að tjá sig á opinberum vettvangi að við séum öll á sama báti og að við komumst í gegnum þetta saman, við gerum þetta saman. Og þá þurfum við líka að sýna að við séum tilbúin til þess að falla frá þeim launahækkunum sem við áttum að fá núna á þessu ári. Það er búið að fresta launahækkun sem átti að eiga sér stað 1. júlí nk. um nokkra mánuði, til áramóta 2020/2021, í staðinn fyrir að fella þá launahækkun alfarið niður. Því miður var aðdragandinn að þessu þannig að ríkisstjórnin var ekki tilbúin til þess að leggja sjálf fram þetta mál eða sambærilegt mál til að sýna þjóðinni samstöðu á þessum ótrúlega erfiðu tímum.

Í dag bárust fregnir af uppsögnum af þeirri stærðargráðu að forstjóri Vinnumálastofnunar sagði að líklega hefði aldrei annað eins sést í sögu landsins. Áður en það kom til voru á sjötta tug þúsunda landsmanna á atvinnuleysisskrá að hluta eða öllu leyti, nærri 60.000 Íslendingar þurfa að óttast um framfærslu sína, sitt lífsviðurværi og hvernig þeir ætla að koma sér í gegnum þennan skafl. Því eru það mjög vond skilaboð út í samfélagið að Alþingi ætli bara að láta launahækkanir þessa árs eða síðasta árs sem drógust renna í gegn án þess að æmta né skræmta.

Það er nefnilega þannig, herra forseti, að þingmenn hafa vald vegna þess að þingmenn eru löggjafinn og þá hafa þingmenn vald til að grípa inn í þetta ferli, öfugt við aðra. Annað fólk hefur ekki vald til að grípa inn í ferlið þegar kemur að launahækkunum. Það hefur ekki þetta vald til að grípa inn í og segja: Við höfnum þessum launahækkunum. Ekki í þeim mæli sem við getum gert hér. Við höfum þetta vald vegna þess að krónutalan er einfaldlega skráð í lögum um þingfararkaup.

Ég veit að fjöldi stjórnarliða styður þessar hugmyndir. Það verður mjög fróðlegt að sjá hverjir þora að styðja málið, hverjir þora að ýta því áfram og láta það komast í gegnum nefnd og klára 2. og 3. umr.

Við höfum séð annað eins hér á undanförnum vikum þar sem mál eru afgreidd úr þingsal á tveimur klukkutímum með öllu. Við getum ekki látið það spyrjast út um þingmenn að þeir séu ekki tilbúnir til þess að standa með þjóðinni á þessum tímum. Fordæmalausir tímar kalla á óhefðbundnar aðgerðir. Það skref sem við erum að leggja til hér, þ.e. þingflokkur Samfylkingar, þingflokkur Pírata og þingflokkur Flokks fólksins, er ekki ógnarstórt skref. Þetta er ekki ókleifur múr. Þetta er pínulítið skref í þá átt að sýna samstöðu með þjóðinni.

Þingmenn eiga að hafa góð kjör og það hafa þingmenn. Þingmenn hafa góð kjör, en núna eiga þingmenn að standa með þjóðinni þar sem fjöldi fólks á um sárt að binda, ekki síst eftir uppsagnir dagsins, og koma í veg fyrir þær launahækkanir sem eiga að birtast okkur þann 1. maí nk.