150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

brúarlán og staða Icelandair.

[10:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég skal þá ekki bæta miklu við svoleiðis að hæstv. ráðherra vinnist tími til að svara spurningunum um Icelandair. Þó get ég ekki látið hjá líða að minna á hversu mikið lá á að keyra brúarlánahugmyndina í gegnum þingið. Menn fengu ekki einu sinni að kalla til gesti í fjárlaganefnd af því að það var svo gríðarlega brýnt að koma því í gegn. En það kláraðist, þingið skilaði sínu, en svo er þetta greinilega óleyst á ýmsan hátt enn þá engu að síður.

Varðandi Icelandair veltir maður fyrir sér hvort hæstv. ráðherra geti ekki á einhvern hátt gefið til kynna með hvaða hætti menn gætu náð saman svoleiðis að það komist einhver hreyfing á hlutina fremur en að enn fleira starfsfólki verði sagt upp hjá félaginu á næstu misserum. Auðvitað viljum við sjá þetta snúast við sem hraðast og félagið fari að ráða fólk aftur til starfa. Hvaða leiðir sér hæstv. ráðherra fyrir sér? Er til að mynda möguleiki á láni sem mætti breyta í hlutafé ef frekara hlutafé skilar sér ekki?