150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

aðgerðir til aðstoðar stórum fyrirtækjum.

[10:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nei, ég tel ekki eðlilegt að verja hluthafana með slíku inngripi, enda liggur það fyrir, eins og ég skil stöðuna, að hluthafarnir verða fyrir stórkostlegu tjóni þar sem félagið er að fara í hlutafjárútboð sem væntanlega mun þýða að núverandi hluthafar verða þynntir út. Almennt um þá leið að ríkið taki stöðu sem hluthafi í fyrirtækjum myndi ég segja að það ætti ávallt að vera síðasti valkosturinn. Það er hins vegar alltaf sjálfsagður hlutur að ræða að ríkið, sérstaklega ef gengið er í ábyrgðir fyrir lánum eða veitt lán, spyrji hvernig það geti tryggt stöðu sína, tryggt fé almennings sem varið er til slíkra aðgerða.

Fram til þessa höfum við náð samkomulagi á þinginu um að verja milljarðatugum í þessum tilgangi, t.d. með brúarlánaleiðinni sem var rædd hér áðan og stuðningslánunum. Þetta eru allt aðgerðir sem tryggja kröfur á fyrirtækin. Hlutastarfaleiðin hefur hins vegar verið öðru marki brennd. Þar höfum við ákveðið á þinginu að fara þá leið að styðja fyrirtæki vegna þess að við sjáum fyrir okkur að án stuðningsins myndi kostnaðurinn hvort sem er lenda á ríkinu í gegnum atvinnuleysistryggingar, Ábyrgðasjóð launa o.s.frv. Í þeim tilgangi að fara í almenna efnahagslega aðgerð höfum við fetað okkur þessa slóð.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta séu almennar efnahagslegar aðgerðir sem m.a. Icelandair nýtur í þessu sambandi. Að sjálfsögðu er ekki til sundurliðaður listi yfir þau fyrirtæki sem munu njóta þeirra aðgerða sem voru kynntar hér fyrr í vikunni vegna þess að við erum ekki einu sinni búin að lögfesta þær og koma upp stofnuninni sem á að taka við umsögnunum. Umsóknir eru ekki einu sinni byrjaðar að berast þannig að það er útilokað að kalla eftir því að rætt sé um lista fyrirtækja sem muni fá úthlutað.

Að sjálfsögðu verða opinberar upplýsingar þegar fram í sækir um hvernig úrræðið nýttist og hverjir nýttu það. Í mínum huga er þetta almenn efnahagsleg aðgerð sem við verðum að hafa trú á að skipti máli og við verðum að spyrja okkur hvað það myndi kosta ríkið til lengri tíma að gera ekki neitt.