150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

aðgerðir til aðstoðar stórum fyrirtækjum.

[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður er svona upptekinn af þessu eina félagi. Við erum hér með 35.000 manns í hlutastarfaleið og það stefnir í að 50.000 manns verði í þeim úrræðum sem stjórnvöld hafa annaðhvort áður lögfest eða eru núna að bregðast við. Hvers vegna vill hv. þingmaður einungis ræða um Icelandair? Hvers vegna boðar hann ekki þá stefnu sína að gegn stuðningi við fyrirtæki sem þurfa nauðsynlega að fá svigrúm til að endurskipuleggja fjárhag sinn vilji hann boða ríkisvæðingu allra slíkra fyrirtækja? (LE: Það hef ég ekki talað um.) Nei, það er bara það sem má skilja á orðum hv. þingmanns, (Gripið fram í.) eða ætlar hann að handvelja eitt og eitt fyrirtæki út og segja: Hér eru fyrirtækin sem Samfylkingin vill eignast hlut í en við ætlum að skilja hin eftir?

Hvað er það sem hv. þingmaður er að láta skína í hér? Er það það að gegn stuðningi í hlutastarfaleið eða gegn þeim stuðningi sem við höfum boðað núna síðast, þar sem fyrirtæki eru í algerri nauðvörn að reyna að bjarga þeim störfum sem þó verða eftir í mörgum tilvikum og koma sér í híði til að þreyja þorrann núna á þessum(Forseti hringir.) ótrúlega erfiðu tímum, þá vilji hv. þingmaður eignast hlutabréf í öllum slíkum félögum? (LE: Það sagði ég ekki.)