150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

kjaramál hjúkrunarfræðinga.

[10:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst öll umræða um einstaka kjarasamningagerð hafa tilhneigingu til að verða óskaplega yfirborðskennd hér í þingsal og tilgangslítil. Hv. þingmaður segir að kjarasamningurinn feli í sér launalækkun. Þetta er algjör misskilningur, fullkominn misskilningur. Að sjálfsögðu er verið að tala um hækkun launa og betri kjör frá einum kjarasamningi til þess næsta. Það sem hv. þingmaður er að blanda saman og hefur í sjálfu sér ekkert með það að gera er að til viðbótar við kjarasamninga sem gerðir eru miðlægt eru ýmsar stofnanir með tímabundin átök eins og átti við í þessu tiltekna tilviki. Það átak sem þarna átti undir, sem voru álagsgreiðslur til hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum, var mál sem Landspítalinn sjálfur tók ákvörðun um. Þegar í ljós kom að það mál, sem sagt endalok þess átaks, truflaði kjarasamningagerðina þá komum við heilbrigðisráðherra hingað inn í þingið og sögðum: Þetta gengur ekki, við þurfum strax að fá fjármagn til að styðja Landspítalann í að framlengja átakið. Það er staðreynd þess máls. En að koma hingað upp og reyna að hefja umræðu um (Forseti hringir.) kjarasamninga á þeim grundvelli að við séum að semja um lækkuð kjör er auðvitað bara ekkert annað en að slá ryki í augu fólks. (Forseti hringir.) Vilji menn taka alvöruumræðu um þessi mál þurfum við að setja það sérstaklega á dagskrá.

(Forseti (SJS): Forseti mælir með því þannig að þá sé ekki farið yfir tímamörk í umræðum.)