150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

kjaramál lögreglumanna.

[10:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmaður senda býsna kaldar kveðjur til þeirra rúmlega 40% hjúkrunarfræðinga sem samþykktu samninginn sem ríkisstjórnin gerði í gegnum sína samninganefnd, yfir 40% hjúkrunarfræðinga. Hv. þingmaður kemur hér og segir að stjórnvöld séu að bregðast öllu þessu fólki. Eigum við ekki að reyna að nálgast þetta af einhverri sanngirni? Það stóð tæpt með samþykkt þessara samninga. Núna stöndum við frammi fyrir nýju verkefni og við ætlum að leysa það saman. Við ætlum að hafa trú á því að við getum náð saman, við séum með efnivið í samninga. Verkefnið er inni á borði ríkissáttasemjara og hjá samninganefndunum þar sem er fullt umboð til þess að ganga frá samningi og við höfum lýst yfir vilja okkar til að ljúka þessu sem allra fyrst. Það hefur reyndar verið síðan að samningarnir voru lausir.

Hér er staða lögreglumanna líka tekin upp og þar hef ég bara nákvæmlega sömu sögu að segja. Þar sem ekki hafa tekist samningar við opinbera starfsmenn hefur það verið vegna þess að viðsemjendur okkar hafa krafist þess að heildarniðurstaða samninganna væri umfram það sem samið hefur verið við alla aðra. Við höfum ekki getað orðið við því. Ég tek eftir því að hv. þingmaður kemur hingað upp og fullyrðir að í því felist einhver óbilgirni af hálfu ríkisstjórnarinnar, það sé enginn samningsvilji að ganga ekki að kröfum þeirra sem vilja fá meira en allir aðrir. Ef þetta er boðskapur hv. þingmanns, að nú sé rétti tíminn, í þeim efnahagsaðstæðum sem nú eru uppi, að gera kjarasamninga þar sem er farið fram úr merki lífskjarasamninganna og samið sé við stórar stéttir um sérstaka niðurstöðu fyrir þá, þá spyr ég hvort hv. þingmaður sé sömu skoðunar fyrir restina af vinnumarkaðnum, fyrir almenna markaðinn og alla aðra opinbera starfsmenn sem nýlega hafa lokið sínum samningum. Hvers vegna hefðu þeir ekki líka átt að fá þessa viðbót sem hv. þingmaður kallar hér eftir? (Forseti hringir.) Hvers vegna ekki? Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að almenni markaðurinn (Forseti hringir.) eigi núna að hækka hressilega og í takti við kröfur þeirra sem fara fram á mest?