150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

kjaramál lögreglumanna.

[11:01]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þetta var áhugaverð ádrepa sem ég túlka sem svo að hæstv. ráðherra sé kominn á endastöð í tilraunum sínum til að nálgast þessa mikilvægu hópa. Ekki er hægt að orða það öðruvísi. Það er búið að gefa upp boltann, hann ætlar ekki ganga lengra. Þarna liggja kröfur. Samningar lúta náttúrlega því að báðir aðilar komi með sitt að borðinu og einhver niðurstaða náist. Ég var að spyrja hvernig hæstv. fjármálaráðherra, í umboði Alþingis, í umboði þjóðarinnar, ætlaði að nálgast þá stöðu sem nú er uppi. Ég átta mig alveg á því að þessir samningar voru felldir tiltölulega naumlega. En að það séu kaldar kveðjur til þeirra sem samþykktu þá — ég bendi á þá staðreynd að hann var felldur. Hann var felldur vegna óánægju með hækkun dagvinnulauna sem þarf ekki að koma sérstaklega á óvart vegna þess að fyrir einu og hálfu ári var framkvæmd könnun meðal hjúkrunarfræðinga þar sem efst á blaði yfir það sem þeir vildu sjá var hækkun dagvinnutaxta. Þetta er ekkert flókið, þetta eru staðreyndirnar. En þetta er viðkvæmt umræðuefni. (Forseti hringir.) Ég átta mig alveg á því og við þurfum kannski að taka það í sérstakri umræðu eins og hæstv. ráðherra biður um. (Forseti hringir.) Spurningin var einfaldlega: Er hæstv. fjármálaráðherra sammála um alvarleika stöðunnar? (Forseti hringir.) Hvar í forgangsröðuninni er reynt að finna lausn?

(Forseti (SJS): Forseti minnir á tímamörk.)