150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

verðbólguhorfur og húsnæðislán.

[11:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í fréttum á Vísi segir frá því að Landsbankinn spáði því að það yrði 0,1% vísitöluhækkun. Nú er hækkunin komin í ljós og hún er 0,48%, sem er fimm sinnum meira. Orðrétt segir í fréttinni, með leyfi forseta:

„Í hagsjánni segir að enginn einn liður skýri muninn á spá bankans og endanlegri tölu, heldur hafi næstum allir undirliðir hækkað umfram væntingar. Því virðist sem það séu aðallega gengisáhrif sem eru að koma fyrr og sterkar fram í verðbólgunni en sérfræðingarnir áttu von á.“

Í því samhengi sagði hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson í óundirbúnum fyrirspurninum, þann 20. apríl sl., með leyfi forseta:

„Svo getum við tekið aðra umræðu um það hvort einhver hætta verði á verðbólguskoti. Ég er bara eins og aðrir hvað það snertir, að um leið og maður sér einhver merki um hættu á verðbólgu er ástæða til að hafa áhyggjur. Enn sem komið er gerir enginn ráð fyrir miklu verðbólguskoti. Það er bara staðreynd.“

Það er bara staðreynd — en þetta er rangt. Ef við segjum það á mannamáli, um hvað erum við þá að tala? Tökum 20 millj. kr. íbúðalán og hvernig staðan á því var fyrir rétt tæpum tveimur mánuðum síðan. Vísitala neysluverðs til verðtryggingar var 469,8. Tæpum tveimur mánuðum seinna var hún 475,2. Hvað þýðir það á mannamáli? Ég skal segja ykkur það. 250.000 kr. hækkun á þessu tímabili, 250.000 kr. hækkun á 20 millj. kr. láni. Þetta þýðir að ef þetta heldur svona áfram verður milljón króna hækkun á árinu. Ætlar ríkisstjórnin að gera það sama og hún gerði í hruninu? Tíu, tuttugu, hversu mörg heimili eiga blæða fyrir verðbólguna?