150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

störf þingsins.

[11:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég get sagt þau ánægjulegu tíðindi að fyrsta verk mitt í morgun, rétt fyrir níu, var að fara í turninn á Smáratorgi og láta taka úr mér blóð til að kanna hvort ég hafi mótefni gegn Covid-19, hvort ég hafi fengið veiruna. Það kom mér á óvart að ég var settur í próf. Ég fékk rör upp í nefið og pinna í hálsinn sem var mjög óþægilegt og uppgötvaði hvað tiltölulega stór hluti þjóðarinnar, 14–15%, hefur þurft að ganga í gegnum. Ég vona heitt og innilega að ég sé búinn að fá þennan óþverra vegna þess að ef ég er ekki búinn að fá hann segi ég bara guð hjálpi okkur. Þá er eitthvað tvennt í gangi sem er mjög slæmt.

En hvað næst? Hvað með lífið eftir Covid? Það sem er undarlegt við þetta ástand sem við höfum upplifað undanfarið er að dauðaslys í umferðinni, vinnuslys eða slys af öðrum orsökum hafa svo til horfið. Á sama tíma hafa dauðsföll vegna veirunnar verið töluverð. En samanburður sýnir að dauðsföll á sama tíma fyrir ári síðan voru svipað mörg og í dag. Við erum því í þeirri stöðu að þurfa að spyrja okkur hvað við ætlum að gera. Ætlum við að fara í sama farið aftur? Eigum við þá að segja að það sé allt í lagi að fólk deyi í bílslysum eða vinnuslysum? Hvað með alla þá sem eru að bíða eftir aðgerðum á sjúkrahúsum? Það er dauðans alvara, látið mig vita það. Svo þurfum við líka að hugsa: Hvað næst? Hvað kemur næst? Við vitum að það kemur eitthvað. Covid-20? Ég veit það ekki en það kemur eitthvað.