150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

störf þingsins.

[11:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Þessa dagana höfum við fengið að sjá samhenta stjórnsýslu sem byggir ákvarðanir sínar á bestu fáanlegu gögnum og miðlar þeim óhindrað til almennings. Það er sú stjórnsýsla sem heldur utan um lýðheilsu og almannavarnir. Því miður er ekki sama uppi á teningnum varðandi stjórnsýslu efnahagsmála. Þar vantar samráð. Þar vantar skýrari og meiri upplýsingar.

Til að búa sig undir það flóð uppsagna sem virðist nú skollið á kynnti ríkisstjórnin þriðja aðgerðapakka sinn nú rétt fyrir mánaðamótin. Til kynningar voru hugmyndir sem ekki er búið að útfæra að fullu. Þetta er skýrt merki þess að ríkisstjórnin sé komin í neyðargírinn sem við hljótum að hafa fullan skilning á, enda stór vandi sem þarf að leysa.

Ég vil staldra hér við þá tillögu að styðja fyrirtæki til að greiða laun á uppsagnarfresti. Fyrir aðild að þessu úrræði verða sett nánari skilyrði, til að mynda um rekstrarhæfi fyrirtækis. Hefðu þau skilyrði ekki þurft að liggja fyrir? Í hvaða stöðu er fyrirtæki sem ákveður að segja upp starfsfólki í dag vegna úrræðisins en uppfyllir á endanum ekki skilyrði þess? Þá er tímalínan umhugsunarefni. Þessi leið verður í boði frá 1. maí nk., þannig að aðgerðirnar verða löngu farnar af stað þegar frumvarp kemur loks til kasta Alþingis. Í hvaða stöðu verður Alþingi þá?

Loks má spyrja sig hvort ríkisstyrktar uppsagnir séu það sem best leysi vandann. Vissulega voru uppsagnir byrjaðar og fleiri á leiðinni en þær verða fleiri en ella vegna þess að ríkisstjórnin býðst til að niðurgreiða hverja uppsögn um 2,5 millj. kr. Á meðan hlutabótaleiðinni var ætlað að styðja fyrirtæki til að halda fólki í vinnu á nú að hvetja fyrirtæki til að segja því upp.