150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

störf þingsins.

[11:45]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Það er alltaf ánægjulegt þegar vel fiskast. Grásleppuveiðar á yfirstandandi vertíð hafa gengið gríðarlega vel sem er mikið gleðiefni og hafa bátar fiskað það vel að elstu menn muna vart aðra eins veiði. Fyrir þessa vertíð gaf sjávarútvegsráðherra út, eftir ráðgjöf Hafró, 4.650 tonna kvóta til veiða á grásleppu. Hverjum bát með grásleppuleyfi sem sækir um veiðar var úthlutað 44 dögum. Vondu fréttirnar í þessu sambandi eru að ef fram heldur sem horfir verður þessi 4.650 tonna úthlutun uppveidd eftir tæpa viku. Margir bátar eru nýbyrjaðir á veiðum og enn fleiri ekki farnir til veiða. Sem dæmi þá hefjast veiðar á innanverðum Breiðafirði ekki fyrr en 20. maí ár hvert og blasir þá við að þar fari enginn bátur á grásleppu á þessu vori. Þar fiskuðust um 1.500 tonn á síðasta ári. Á því svæði eru þrjár grásleppuhrognavinnslur sem bíða eftir hráefni til útflutnings.

Sjávarútvegsráðherrar undanfarinna ára hafa farið eftir ráðgjöf Hafró í úthlutun aflamarks hverju sinni á öllum fisktegundum sem veiddar eru við Íslandsstrendur. Sjálfbærar veiðar eftir ráðgjöf fiskifræðinga eru hluti af ábyrgri fiskveiðistjórn og hef ég oft í ræðum og riti tekið undir það. Þó hefur mér fundist síðan að mæling hófst til ráðgjafar á veiðum að grásleppa sem veiðist sem meðafli í togararalli gefi ekki rétta mynd af grásleppustofninum hverju sinni. Einhverra hluta vegna veiðist þessi fisktegund nú sem aldrei fyrr þannig að það stefnir í að um 150 störf trillukarla og tengdra aðila falli niður vegna þess þetta árið. Við hljótum að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að halda störfum gangandi eins og kostur er, ekki síst á þessum fordæmalausu tímum heimskreppu með Covid-19.