150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

um fundarstjórn.

[11:47]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Það er fyllilega eðlilegt að því sé svarað hér á Alþingi þegar formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga talar um aðkomu Alþingis að mögulegum verkföllum. Það er náttúrlega ekkert annað en dulin hótun um að leita liðsinnis Alþingis við að setja lög á verkföll fátækasta starfsfólks sveitarfélaganna. Það er fyllilega eðlilegt þegar slíkur bolti er gefinn upp af formanni opinbers batterís, um aðkomu Alþingis að slíku, að því sé svarað hérna. Ég vil benda á að ef Alþingi getur haft afskipti að því og svipt lægst launaða fólkið í landinu réttindum sínum í kjaramálum þá er líka hægt að hafa afskipti af réttindum sveitarfélaga í kjaramálum til að ganga að samningum sem eru að lágmarki í samræmi við velferðarsamningana sem Reykjavíkurborg gerði, með velferð barna í huga. Það er hægt að gera það líka, með velferð barna í forgangi. Semjið þið. Horfið til fordæmis velferðarsamninga Reykjavíkurborgar og standið með börnunum.