150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

opinber stuðningur til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

711. mál
[12:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Jú, ég er algerlega sammála því að það væri örugglega til bóta. Það sem ég er að spá í, segjum að þarna verði um 7 milljarðar, þá óttast ég kannski að lífeyrissjóðirnir segi: Ríkið leggur fram 7 milljarða, af hverju leggjum við ekki líka bara til 7 milljarða? Spurningin er hvort ríkið eigi ekki í þessu tilfelli að taka svipaða áhættu og verið er að hvetja lífeyrissjóðina til að taka. Lífeyrissjóðirnir eru auðvitað ávöxtun á lífeyri framtíðarinnar og við vitum að fjárfesting í nýsköpunarfyrirtækjum er áhættufjárfesting en hún getur skilað bæði lífeyrissjóðunum mjög góðri ávöxtun og þeim lífeyrisþegum sem fá greitt úr sjóðunum. Ég velti bara fyrir mér hvort ríkið sé með eitthvert plan B um að auka í þetta og fylgjast með hversu hröð þróunin verður, hversu margir sjóðir verða stofnaðir, hversu mörg fyrirtæki sæki í sjóðina og hvort það vanti fjármagn til að sjóðurinn geti verið tilbúinn að grípa inn í ef þörfin verður meiri en gengið er út frá í þessu.