150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

opinber stuðningur til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

711. mál
[12:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Sá sjóður sem stendur til að stofna með þessu frumvarpi, nýsköpunarsjóðurinn Kría, er eins og regnhlífarsamtök fyrir sérhæfða sjóði sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum. Hins vegar er Kría ekki sjóður sem frumkvöðlar sækja beint í. Það hefur alla vega ekki komið fram í umfjöllun um Kríusjóðinn. Því er eðlilegt að spurt sé hver sé munurinn á Kríu, þessum nýja sjóði og svo Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Má t.d. Kría kaupa hlut í honum?

Í greinargerð með frumvarpinu í 2. kafla segir:

„Fjármögnun fyrirtækja sem byggjast alfarið, eða nær alfarið, á hugviti lýtur nokkuð öðrum lögmálum en fjármögnun í rótgrónari atvinnuvegum þar sem veðhæfar eignir eða fyrirsjáanlegt tekjuflæði getur legið til grundvallar fjármögnun í bönkum eða á skuldabréfamarkaði. Því er mikilvægt fyrir stefnu stjórnvalda að styðja markvisst við uppbyggingu á nýsköpunardrifnum atvinnuvegum og stuðla þannig að vexti sprota- og nýsköpunarfyrirtækja, auk þess að tryggja að á Íslandi sé aðgengi að fjármagni sem sé sérhæft fyrir þess háttar starfsemi.“

Þá er eðlilegt að spurt sé hvort þetta þýði að sérhæfðu sjóðirnir sem Kría ætlar að fjárfesta í eigi frekar að leggja fjármagn í t.d. unga menn við tölvur eða nýsköpun í sjávarútvegi.

Það að fjölga sjóðum sem frumkvöðlar geta leitað til er af hinu góða, svo framarlega sem þeir eru víðsýnir og setja ekki öll eggin í sömu körfuna, eins og sagt er, og gerðist með Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins árið 2000 þegar hið svokallaða tæknibóla sprakk. En það sem vantar allra mest fyrir frumkvöðla á byrjunarstigi er þolinmótt fjármagn og að hvert og eitt verkefni verði metið og í því fjárfest svo lengi sem þurfa þykir, allt þar til frumgerð hefur sannað sig. Það þýðir ekkert að veita fjármagn í verkefni til þriggja ára ef verkefnið er það stórt og umfangsmikið að fyrirséð sé að það klárist ekki á svo skömmum tíma. Það eru allt of mörg verkefni skilin eftir í dauðadalnum, ef svo má að orði komast, verkefni sem þurfa þetta þolinmóða fjármagn og meiri tíma til að sanna sig.

Klárlega er allur raunverulegur og skilvirkur stuðningur við nýsköpun af hinu góða og í þennan nýja Kríusjóð á að setja allmikla peninga. Auðvitað ber að fagna því að verið sé að auka framlög til nýsköpunar. Það skiptir hins vegar miklu máli að þessir peningar nýtist vel til nýsköpunar en ekki að þetta sé eins og hver annar bankarekstur þar sem fljóttekinn gróði er í fyrirrúmi og menn hafa ekki þolinmæði. Það hefur verið gallinn t.d. við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Hans fjárfestingar hafa miðast við skjótfenginn arð en ekki að leggja áhættufé í nýsköpunarverkefni. Þannig hafa t.d. nýsköpunarverkefni á fyrri stigum verið útilokuð frá aðstoð þessa sjóðs og spurningin er því mjög veigamikil í þessu samhengi og hér í þessari umræðu hvort það sé verið að feta áfram þá sömu slóð.

Við fyrstu sýn sýnist mér að þessi sjóður komi ekki til með að gagnast nægilega vel litlum frumkvöðlafélögum og -hópum sem eru á frumstigi nýsköpunar. Til þeirra er einfaldlega allt of litlu fé varið og ráðstöfun þess að sumu leyti oft illa ígrunduð, því miður. Þannig eru t.d. viðbrögð stjórnvalda við ástandinu núna að setja innspýtingu, allnokkurt aukið fé, í nýsköpun. Það er að sjálfsögðu skynsamlegt og við í Miðflokknum styðjum það. Hins vegar virðist eiga að ráðstafa því mestöllu eftir þessum sama farvegi, í Tækniþróunarsjóð svo dæmi sé tekið. Það finnst mér ekki vera nægilega vel ígrundað. Það er bara verið að reyna að gera eitthvað hratt án þess að ígrunda nægilega vel hvar fjármunirnir nýtast best og hvaða hópar þurfa á þessu að halda og hverjir verða út undan. Það er þar sem menn verða að fylgjast mjög gaumgæfilega vel með. Þess vegna held ég að það hefði jafnvel verið nær að efla aðra sjóði, setja þetta aukna framlag inn en efla aðra sjóði sem starfa við hlið t.d. Tækniþróunarsjóðs, til að mynda Orkusjóð. Það þarf reyndar að bæta lagaumgjörðina um þann ágæta sjóð. En Tækniþróunarsjóður er að mörgu leyti ágætur og býður upp á margbreytt úrræði. En það er alltaf slæmt ef ein stofnun hefur alræðisvald, ef svo má segja, um það hverjir fá þá mikilvægu líflínu sem hugmynd á frumstigi þarf og hverjir ekki í þessum mikilvæga málaflokki.

Ríkisstjórnin starfar eftir stjórnarsáttmála frá því að hún tók við völdum 2017 og þar eru þjóðinni gefin ýmis fyrirheit, m.a. hvað varðar eflingu hugvits og nýsköpunar. Þar stendur, með leyfi forseta: „Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða“, og að sjálfsögðu skal tekið undir það. Enn fremur segir: „Ríkisstjórnin mun vinna að því að skilyrði hér á landi fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki verði framúrskarandi.“

Í inngangi nýrrar nýsköpunarstefnu segir:

„Hugvit einstaklinga er mikilvægasta uppspretta nýsköpunar. Það er þar sem við getum átt von á að finna lausnirnar og svörin sem munu áfram gera það mögulegt að bjóða upp á framúrskarandi lífsgæði í harðbýlu landi.“

Allt eru þetta falleg og innihaldsrík og góð orð. Af þessu mætti ætla að ríkisstjórnin vilji efla starf hugvitsmanna og búa þeim viðunandi starfsumhverfi. Hugvitsmenn og frumkvöðlar hafa með sér tvenns konar hagsmunasamtök. Það er SFH sem stendur fyrir Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna og svo KVENN, sem stendur fyrir konur í nýsköpun. Þessi ágætu félög vinna í anda þeirra markmiða sem ríkisstjórn og ráðherrar setja í tilvitnuðum yfirlýsingum sínum og starfa náið saman. Þannig hljóta þessi félög að vænta þess að fá stuðning ríkisstjórnarinnar við verkefni sín og starfsemi, en það er hins vegar öðru nær. Þessi ágætu samtök hafa í tvígang sótt um styrk, ekki háan styrk, frá stjórnvöldum til að geta viðhaldið sinni góðu starfsemi og í tvígang hefur þeirri styrkbeiðni verið hafnað. Að sjálfsögðu þarf að rökstyðja það. Ég held að rétt sé að rekja þetta vegna þess að þessi fögru fyrirheit ríkisstjórnarinnar hafa ekki skilað sér alla leið. Þau eru meira í orði en á borði, a.m.k. þegar kemur að þessum mikilvægu litlu félögum, hagsmunasamtökum. SFH og KVENN eru einu hagsmunasamtök hugvitsfólks á landinu. Þau nutu framlaga frá hinu opinbera og mest voru þau 2013 en fóru síðan minnkandi ár hvert. Frá árinu 2017, um það leyti sem ríkisstjórnin tók við, hefur þessum félögum verið synjað um styrkbeiðnir og enginn rökstuðningur liggur þar að baki þó að eftir því hafi verið leitað.

Rétt er að benda á nokkrar veigamiklar röksemdir fyrir því að það eigi að styðja við bakið á þessum félögum. Má þar t.d. nefna svokallaða jafningjafræðslu til frumkvöðla sem þessi félög standa fyrir. Skráðir félagsmenn SFH og KVENN eru á fjórða hundrað sem vinna að og hafa mikinn áhuga á nýsköpun. Auðvitað á að styðja við bakið á svona frumkvöðlum. Innan þessa hóps er fjölbreytt menntun og gríðarlega mikil reynsla og dýrmætt fyrir þá sem hyggjast hefja nýsköpun að eiga kost á því að vera saman og ræða saman. Nýliðar hafa á þann hátt fengið ráðgjöf frá þessum samtökum um hvert sé unnt að leita eftir faglegri ráðgjöf, styrkjum o.s.frv. og einnig hvað ber að forðast á fyrstu stigum. Síðan hafa félögin jafnvel veitt álit sitt á verkefnum frumkvöðla ef eftir því er leitað. Mikilvægust er þó sú handleiðsla og sú hvatning sem felst í því að ræða sín mál við aðra sem verið hafa í sömu stöðu þegar kemur að frumkvöðlastarfi. Þarna hafa þessi ágætu félög verið með ráðgjafarþjónustu sem hefur skilað góðum árangri. Hún hefur verið undir stjórn formanna félaganna sem miðla verkefnum milli félagsmanna eftir eðli þeirra. Þess ber að geta að öll þessi jafningjafræðsla félaganna hefur verið unnin í sjálfboðavinnu. Það er rétt að halda því til haga. Til samanburðar má benda á að lögbundin ráðgjafarþjónusta hjá Nýsköpunarmiðstöðinni er rekin af fólki sem er á launum hjá ríkissjóði. Þó að þar sé stundum aðgangur að fólki með meiri menntun og aðgangur að meiri fræðslu er hún samt ekki á þeim jafningjagrunni eins og ég rakti hér. Því er hér um starfsemi félaga að ræða sem að öllu leyti þjónar markmiðum stjórnvalda sem ég hef rakið og kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Félögin standa fyrir miðlun og fræðslu til hugvitsfólks og yfirleitt eru haldnir fræðslutengdir viðburðir mánaðarlega sem opnir eru félagsmönnum og gestum þeirra og eru oft fjölsóttir. Dæmi um slíka viðburði eru t.d. fyrirlestrar og kynningar hinna ýmsu styrktarsjóða í nýsköpunarumhverfinu, kynning á Einkaleyfastofu, kynning lögfræðistofu, kynningu á stofnun og rekstri smáfyrirtækja, verkefnastjórnun, kynning á erlendum samstarfsaðilum og kynningar á fjölmörgum verkefnum á ýmsum sviðum, t.d. á sviði tölvutækni og framleiðslu af ýmsu tagi. Undir þetta falla einnig fjölmargar heimsóknir í starfandi fyrirtæki sem ýmist hófust af frumkvöðlastarfsemi eða hafa nýsköpun sem mikilvægan þátt í starfsemi sinni. Með þessu móti er bæði leitast við að efla fræðslu og hvetja til nýtingar hugvits. Allt hefur þetta verið sjálfboðaliðastarf þeirra sem að því standa og þar liggur kostnaður, eins og t.d. í fundaraðstöðu, skrifstofuaðstöðu og öðru slíku sem þessi félög hafa sótt um aðstoð við. Það má upplýsa hér að fyrir síðustu fjárlagaafgreiðslu sóttu bæði þessi félög, sem hafa rúmlega 400 félagsmenn, um samtals 5 millj. kr. styrk úr ríkissjóði og ríkisstjórnin gat ekki orðið við því, þrátt fyrir fögur fyrirheit í stjórnarsáttmálanum um að efla nýsköpun og allt sem fylgir og ég hef rakið hér.

Það verður að segjast eins og er, forseti, að þetta er ákaflega dapurlegt. Ég set þetta fram hér vegna þess að nú er ríkisstjórnin að sýna það að hún ætlar að setja aukið fjármagn í þetta. Þess vegna á hún að styðja félagasamtök sem þessi sem vinna mikilvægt sjálfboðastarf ár eftir ár. Það eru takmörk fyrir því hvað fólk getur unnið svona mikið í sjálfboðavinnu. Því fylgir kostnaður og annað.

Ég vil nota tækifærið til að hvetja ráðherra, sérstaklega í tengslum við þetta mál, að veita þessum félögum, samtökum hugvitsmanna og samtökum kvenna í nýsköpun, styrk til þess að geta haldið áfram sinni mikilvægu starfsemi sem hefur skilað okkur öllum miklum árangri.