150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

opinber stuðningur til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

711. mál
[12:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að vekja athygli á heildarsamhenginu í þessu máli. Það er tiltölulega mikið sett í nýsköpun í þeim pökkum sem eru að koma frá ríkisstjórninni, en mér finnst ekki nægilega mikið sett í þau nýsköpunarapparöt sem við höfum, sérstaklega ekki í grunnrannsóknir sem gefa okkur í rauninni tækifæri til framtíðar. Það eru nefnilega sóknarfæri á mjög mörgum sviðum. Ef við tölum bara um nýsköpunarumhverfið eru t.d. mjög mikil sóknarfæri í leikjaiðnaði. Það eru mýmörg fyrirtæki að gera mjög spennandi hluti á því sviði. Við verðum nefnilega að hætta þessu hagkerfi sem byggir á fáum, stórum starfsgreinum. Við erum einhvern veginn alltaf að hella okkur út í ný tækifæri og við förum alltaf yfir um í þeim. Það var þannig í sjávarútveginum í gamla daga þegar síldarævintýrið var, við höfum gert það með álið, það tekur 80% af allri orku sem er framleidd hérna, sem er galið. Bankahrunið, það var það sama, við fórum algjörlega yfir um í fjármálageiranum og það nýjasta er í ferðamannaiðnaði. Hann var orðinn stærsta atvinnugreinin á Íslandi, allt í lagi með það að vissu leyti en það býr til þessa áhættu á bólumyndun, og bólan sprakk að lokum. Það var ekki endilega á sömu forsendum og fyrri stóru greinarnar lentu í, að sjálfsögðu ekki. En það er einmitt málið. Það er aldrei sama ástæðan sem veldur því að bólan springur en hún springur alltaf einhvern veginn. Og þegar hún springur kemur það hart niður á okkur af því að hún er hlutfallslega það stór. Við höfum verið að veita ferðamannaiðnaðinum skattaívilnanir á undanförnum árum með þeim rökum að það séu veittar skattaívilnanir um allan heim í ferðamannaiðnaðinum. En það er líka sérstök ákvörðun að veita skattaívilnun til, sem var fyrir þetta ástand, stærstu greinarinnar á Íslandi, hvort sem litið er á tekjur eða innflutning og útflutning. Þá erum við vísvitandi að veita ákveðnum markaðsráðandi aðilum í rauninni skattaívilnanir í staðinn fyrir að beita skattaívilnunum til að rækta upp fjölmennari og fjölbreyttari flóru starfsgreina en við Íslendingar höfum verið með, með tvo, þrjá, fjóra aðalatvinnuvegi.

Ég vildi bara vekja athygli á þessu í því tilliti að tækifærin, þó að þau séu mjög mörg í núverandi aðstæðum, byrja í grunnrannsóknum. Það er einfaldlega ekki verið að gera nægilega góða hluti til að styðja þá sýn til framtíðar sem myndast í grunnrannsóknum. Með þeim gerum við okkur tilbúin til að takast á við áskoranir morgundagsins í stað þess að upplifa dag múrmeldýrsins aftur og aftur. Það er gríðarlega mikilvægt að byrja í grunnrannsóknum því að þar myndast tækifæri dagsins í dag. Þar er gróska, þar er moldin sem nýsköpun sprettur úr. Með þessu máli er lagt aukið fjármagn til hennar og lögð meiri áhersla á, af fenginni góðri reynslu annars staðar frá, það er ákveðin fyrirmynd sem er gott. En moldin sem nýsköpunartækifærin vaxa upp úr kemur frá grunnrannsóknum og í þann gír þurfum við tvímælalaust að setja okkur betur í og gera betur.