150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[12:54]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni þegar hann talar um mikilvægi þessa og hversu mikil, löng og óþolandi sú barátta hefur verið að fólk með fötlun geti komist um. Eins og kemur fram í greinargerðinni erum við með í gildi lög um algilda hönnun þannig að þegar um er að ræða styrki sem fara í mannvirkjagerð er alveg skýrt hver skyldan er. Við getum síðan rætt hér hversu ítarleg þau lög eru, hvort það væri gagnlegra að sameinast um markmiðin en fólk hafi meira svigrúm til að finna út úr því hvernig það er best gert. Það er þó önnur umræða.

Stjórnin hefur breytt stigagjöf og það er sérstaklega litið til þess þegar hugað er að því og tryggt að allir hafi aðgang að uppbyggingunni. Hins vegar styrkir Framkvæmdasjóður ferðamannastaða mjög margvíslegar framkvæmdir og á ólíkum stöðum í náttúru Íslands. Vissulega eru einhver takmörk sett en ég er bara alveg sammála og ég vil að þessu sé haldið á lofti. Það hefur Sjálfsbjörg gert mjög vel og ég vildi óska þess að Sjálfsbjörg þyrfti ekki að berjast svona ötullega fyrir þessu, þetta ætti að vera sjálfsagður hlutur. Ég hef tekið þeim ábendingum alvarlega en þegar um er að ræða mannvirki eru lögin alveg skýr, eins og ég segi, og þá ber að fara eftir þeim. Vissulega geta verið sett einhver takmörk þegar við erum í náttúrunni sjálfri. Það var t.d. mjög áhugavert þegar við fórum til Nýja-Sjálands fyrir um tveimur árum og sáum þar þá algjöru grundvallarreglu að ef boðið er upp á áfangastað þarf að vera einhver leið fyrir fólk með fötlun til að njóta þess; þó að það geti ekki gert allt sem staðurinn hefur upp á að bjóða sé þó alltaf eitthvað fyrir alla. Stundum er staðan einfaldlega þannig að það er ekki hægt að nýta allt saman og það er nokkuð sem við eigum að sjálfsögðu að stefna að.