150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[13:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er ágætisfrumvarp og lítur ágætlega út. Áhersla á svæðisbundna þróun er áhugaverð. Það sem mér finnst vanta á heildina litið er tengingin á milli svæðanna. Rosalega margir ferðamenn fara dálítið skarpt yfir milli svæða, renna bara hringveginn, jafnvel alveg að Jökulsárlóni, þ.e. á Suðurlandinu, fram og til baka á einum degi. Það er mislangt eftir færi og hvernig fólk kemst. Mér finnst vanta heildarsýn um t.d. staði við hringveginn þannig að við getum komið hvar sem er inn á hringveginn og rennt yfir álagsmestu staðina sem eru þar í kring og eru með fullum stuðningi og aðstöðu, með landvörð á svæðinu og uppbyggingu sem hefur verið til að taka við slíku álagi.

Ráðherra segir að unnið hafi verið þrekvirki í uppbyggingu. Mér finnst það dálítið áhugavert af því að fyrir nokkrum árum minnkuðum við framlög í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða af því að umsóknir skorti, af því að ekki bárust nægilega margar umsóknir um uppbyggingu á ferðamannastöðum á sama tíma og átroðningur á mörgum stöðum, sérstaklega á Suðurlandinu, var svo mikill að svæði lágu undir skemmdum. Það er misræmi sem ég held að þetta frumvarp geti tvímælalaust bætt varðandi opnun á því.

Við grípum dálítið seint í rassinn og mig langar til að sjá heildarsamhengið líka varðandi tenginguna á milli þessara svæða og innkomu á Seyðisfirði, Akureyri, Vestfjörðum o.s.frv. þar sem við getum byrjað á öðrum stöðum en endilega suðvesturhorninu.