150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[13:07]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Þá fer líka að reyna á aðra þætti, bæði mögulegar breytingar á löggjöf sem er til nú þegar og mögulega smíði á nýrri löggjöf eða útfærslu. Þegar við ræðum stýringar er líka spurning hvort hægt sé að fara í einhvers konar leyfi eins og mikið hefur verið rætt um, til að mynda þegar um er að ræða svæði sem eru í eigu einstaklinga og þá gæti viðkomandi boðið reksturinn út án þess að hann vildi endilega fara í hann sjálfur. Einhver annar gæti sinnt því gegn gjaldi.

Hið sama á við um svæði í eigu ríkisins. Okkur kann að þykja mikilvægt að almenningur eigi enn landið en kannski er hið opinbera ekki í öllum tilfellum best til þess fallið að stunda slíkan rekstur. Þá þarf að smíða umgjörð utan um það hverjir eigi að geta boðið í. Væntanlega viljum við ekki að það sé eingöngu miðað við þann sem getur greitt hæst heldur setjum við fram einhverjar kröfur fyrir fram um verndun náttúru og til mislangs tíma. Ætlum við að opna á að einstaklingar geti farið í fjárfestingar á svæði í eigu ríkisins? Þá erum við komin í viðkvæma umræðu um úthlutun sem við könnumst við úr öðrum atvinnugeira sem heitir sjávarútvegur.

Þetta verkefni fer ekkert frá okkur og ef við værum ekki í því ástandi sem við erum í núna og björgunarstarfi með allt á haus værum við mögulega komin í þessa umræðu vegna þess að næst á dagskrá var að ræða það hvernig við getum farið í frekari stýringu. Núna horfa hlutirnir öðruvísi við, við erum, sem betur fer eða því miður, ekki með það álag á náttúruna sem við vorum með áður. Vonandi verðum við aftur með þannig fjölda ferðamanna að það muni reyna á stýringu og ákvarðanir sem þarf að taka. Vonandi komumst við á þann stað að við getum farið að ræða slíka þætti þrátt fyrir að það verði örugglega viðkvæm umræða.