150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[13:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, markmið og hlutverk. Þetta er hið besta mál og ég styð það alveg að auka þurfi og skerpa á þessu vegna þess að nú er tækifærið. Nú eru ferðamennirnir svo til horfnir. Í fréttum í gærkvöldi var viðtal við þá sem voru að leggja stíg við Geysi og þar kom fram að þeir fengu allt í einu frið til þess að leggja stíginn, þeir þurftu ekki að girða af. Þetta sýnir þar af leiðandi hve mikilvægt það er fyrir okkur að drífa í þessu núna ef við reiknum með að fá annan eins fjölda ferðamanna aftur þegar um hægist.

Á sama tíma setur þetta okkur þær skorður að við þurfum og eigum að sjá til þess að algild hönnun, eins og á ferðamannastöðum, dugi fyrir alla. Þar erum við að tala um fólk í hjólastólum, fólk á hækjum, fólk í göngugrindum og fólk með stafi. Því miður er það ekki regla heldur undantekning, því miður algjör undantekning í flestum málum. Við verðum líka að átta okkur á því að við erum með alþjóðasamninga sem og samning Sameinuðu þjóðanna um aðgengi fatlaðra. Þar kemur skýrt fram að aðgengi eigi að vera fyrir alla. Þar af leiðandi eigum við að sjá til þess.

Við gerum okkur grein fyrir því að við getum ekki sagt að við fáum 100% aðgengi fyrir alla en við skulum a.m.k. rífa okkur upp úr þeim förum sem við erum í núna þar sem liggur við að menn leiki sér hreinlega að því að komast hjá því að gera byggingar, ferðamannastaði og annað aðgengilegt fyrir fatlaða. Krafan er líka um að arkitektar og aðrir sem koma að hönnun, hvort sem er hönnun göngustíga, mannvirkja eða annars, sjái til þess að þetta sé hannað í upphafi þannig að allir geti nýtt sér það.

Síðan eru eftirlitsaðilar. Ætlum við að láta það viðgangast, eins og við höfum gert undanfarin ár og áratugi, að loka augunum fyrir því að húsnæði, nýjar byggingar — nýjustu byggingarnar — eru teknar út af byggingarfulltrúa og þær uppfylli ekki aðgengiskröfur? Þær eru teknar út og engar athugasemdir gerðar. Þetta gengur ekki upp og þess vegna verðum við líka að sjá til þess að það sé hægt að gera eitthvað í því, hægt að gera kröfur og að það sé hægt að breyta. Við þurfum að sjá til þess að ekki sé hægt að haga sér þannig að aðgengið sé bara aukahlutur, eitthvað sem er á bak við augun eða eyrun, að menn hugsi um hvort þeir nenni að gera það ef það kostar ekki neitt, annars sé það ekki inni í dæminu.

Virðingarleysið er algjört og þess vegna verður maður að gera kröfu. Það er ekki þannig að lög og reglur segi að menn megi haga sér svona heldur virðist vera komið hálfgert samkomulag um að það megi brjóta lög og reglur.

Ég tók líka dæmi með hæstv. ráðherra áðan sem er enn sorglegra, að þegar menn vilja virkilega standa sig og reyna að gera eitthvað vel sé það gert rangt. Hverju er þá um að kenna? Það hlýtur að vera þeim sem teiknar upphaflega, arkitektinum. Það er sorglegt vegna þess að þarna er verið að gera hlutina rétt, gera þá fagmannlega, reyna að sjá til þess að aðgengi sé gott, og þá er sorglegt ef það er svo gert þannig að það er ekki einu sinni hægt að nýta hönnunina þótt flott sé. Þarna eigum við númer eitt, tvö og þrjú ekki að hugsa um útlitið heldur notagildið, fyrst það og þegar við erum búin að tryggja það getum við sett fagurfræðina með og haft hönnunina fallega.

Ég vona heitt og innilega að við getum fundið einhverja leið sem yrði hvatning fyrir þá sem ætla að nýta sér þær leiðir að fá styrk til að gera aðgengi úti í náttúrunni fyrir alla. Þeir gætu fengið þá hvatningu að ef þeir sýna fram á að þeir séu að gera þetta fyrir alla og tryggja aðgengi fyrir þá sem eru í hjólastólum og aðra fatlaða einstaklinga sem þurfa á því að halda fái þeir einhverja umbun. Ríkið gæti t.d. umbunað þeim með því að auglýsa eða setja upp einhverjar síður þar sem fólki er umbunað fyrir að hafa komið þessu á og líka gangi þeir fyrir þegar þarf að gera eitthvað meira. Þá eru þeir að sýna að þeir ætli að fara eftir lögum og reglum og sjá til þess að allir hafi aðgengi að þeim náttúruperlum sem þeir tryggja aðgengi að.