150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

ársreikningar og endurskoðendur og endurskoðun .

721. mál
[13:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mikið gleðiefni að það eigi að opna ársreikningaskrá fyrir öll fyrirtæki. Það liggur einmitt frumvarp fyrir þinginu um nákvæmlega þetta og þar voru fyrstu skrefin tekin, þ.e. í frumvarpi sem var samþykkt hér árið 2017, minnir mig, um opnun fyrirtækjaskrár, og næstu skref voru að opna ársreikningaskrá. En það sem vantar í þetta er hluthafaskrá. Það þarf einnig að opna hluthafaskrá. Af því að þetta er í þremur mismunandi lagabálkum þá koma ekki allar upplýsingarnar fram. Þó að allt sem er í fyrirtækjaskrá sé gefið út þá stoppar það einhvern veginn í ársreikningalögunum og hluthafaskrárlögunum, alla vega í köflunum hvað það varðar þó að allar upplýsingarnar séu aðgengilegar í fyrirtækjaskrá sjálfri. Það voru svona áhugaverð sjónarmið eða athugasemdir sem komu fram um það af hverju lokað er fyrir hvert annað þarna á milli þó að opinn og gjaldfrjáls aðgangur sé að fyrirtækjaskrá. Þó að fyrirtækjaskrá innihaldi upplýsingar um ársreikninga og hluthafaskrána og af því að það er ekki tilgreint í lögunum um ársreikninga og hluthafaskrá, þá er það lokað þó að það sé aðgengilegt í gegnum fyrirtækjaskrá, ef þú ferð þær leiðir í því. Það er mjög eðlilegt eins og kemur fram í þessu, að grundvöllurinn sé einmitt opið aðgengi að ársreikningaskránni, fyrirtækjaskránni og að hluthafaskránni líka og svo séu sérstakar kvaðir á þessi stærri kerfislegu mikilvægu fyrirtæki sem þurfa að sinna svona auknum gagnsæiskröfum. Mjög gott mál.