150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

barnalög.

707. mál
[14:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Þeir sem sitja í þeirri nefnd sem málið fer til ræða þetta þá frekar og spyrja út í þetta.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í stuðning við foreldra fatlaðra barna sem eiga tvö heimili og þar þurfa að vera hjálpartæki. Mun ríkið styðja bæði heimili varðandi hjálpartæki sem eru nauðsynleg börnunum? Þetta skiptir mjög miklu máli af því að það hefur verið mikið óréttlæti í kerfinu eins og það er núna þar sem jafnvel er jöfn umgengni, sameiginleg forsjá, en það er bara annað heimilið sem fær allan stuðning. Þá erum við að tala um hjálpartæki, fjárhagslegan stuðning, umönnunarbætur og þess háttar og hvort stutt verði með fullnægjandi hætti við bæði heimilin, sérstaklega þegar kemur að hjálpartækjum, það er jú ekki hægt að skipta þeim í tvennt. Og að lokum: Geta foreldrar ákveðið að allar bætur, barnabætur og allar stuðningsbætur, fari eingöngu til annars foreldris í svona aðstæðum?