150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

708. mál
[14:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er aðallega tvennt sem ég hef við þetta að athuga. Ef markmiðið er að einfalda regluverkið er náttúrlega auðveldast að klippa á strenginn. Fjármögnunin á þessu á að vera hluti af tekuskatti í rauninni, sem væri þá hægt að lækka og kirkjan gæti innheimt sóknargjöld sjálf og haft alla stjórn á eigin fjármunum. Eins og er þá er verið að innheimta sóknargjöld í gegnum skattinn. Þar af leiðandi er þetta opinbert fé, almannafé. Ef það er viðmiðið tekur það tillit til stjórnarskrárinnar varðandi fjárheimildir og allt eftirlit með fjárheimildum sem þarf að vera eins og hjá öllum öðrum. Ef þetta á að einfalda greiðslur og ábyrgð á fjármálum til kirkjunnar þá missir þingið á sama tíma eftirlit með meðhöndlun fjárheimilda sem það samþykkir. Það er brot á stjórnarskrárákvæði. Við verðum að geta spurt kirkjuna á nákvæmlega sama hátt og við getum spurt stofnanir hvernig er farið með fjárheimildir sem ríkið samþykkir til stofnana. Þetta er sama fé sem verið er að spyrja um.

Ég er því ekki sammála því sem segir í frumvarpinu um að þetta varði stjórnarskrána ekki neitt og í rauninni sé bara verið að styrkja þjóðkirkjuna, samanber þá grein stjórnarskrárinnar. Þetta var sem sagt um stjórnarskrárákvæðið sem er vandamál.

Svo er það einföldun regluverksins. Það á einfaldlega að klippa þetta í sundur. Og hvernig passar það saman við þessa einföldun þegar allt kemur til alls, því að það er alltaf verið að blanda kirkjujarðasamkomulaginu inn í þetta, að þessar greiðslur séu einhvern veginn uppgjör á því samkomulagi? Það er samt aldrei rökstutt hver eftirliggjandi skuld okkar er vegna kirkjujarðasamkomulagsins því að það er tvímælalaust til endanleg upphæð eða verð á þeim jörðum sem þar fluttust yfir.